Aukin rafræn þjónusta á vef Borgarbyggðar

Ný heimasíða sveitarfélagsins Borgarbyggðar leit eins og kunnugt er dagsins ljós í haust. Síðan er afrakstur undirbúnings stýrihóps starfsmanna sveitarfélagsins með hliðsjón af ábendingum íbúa og kjörinna fulltrúa. „Vel tókst til og almenn ánægja hefur mælst á meðal íbúa. Starfsmenn sveitarfélagsins þakka öllum þeim sem sendu inn ábendingar, þær hafa gert gæfumuninn við vinnslu síðunnar,“ segir í tilkynningu.

Við gerð síðunnar var lagt upp með að einfalda aðgengi að upplýsingum og gera vefsíðuna notendavænni. Vefsíðan er bjartari yfirlitum og snjöll sem felur í sér að hún er hönnuð og sett upp til að aðlaga sig að skjástærðum, hvort sem síðan er opnuð í gegnum hefðbundna tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Nú hefst markviss vinna við að auka rafræna þjónustu á heimasíðu Borgarbyggðar. Af því tilefni er vert að minna á að eftirfarandi aðgerðir er hægt að framkvæma á heimasíðuna borgarbyggd.is: Panta viðtal hjá starfsmanni Borgarbyggðar, gerast áskrifandi af fréttum, rafrænt umsóknarferli, setja inn viðburði, skoða útgefna reikninga frá Borgarbyggð og ráðstafa og skoða notkun frístundastyrks.

„Vinna við þróun heimasíðunnar mun halda áfram á komandi vikum og mánuðum. Þeir sem vilja koma ábendingum á framfæri er bent á hnappinn „Senda ábendingu“ sem er að finna bæði efst og neðst á síðunni. Borgarbyggð vonar að íbúar sveitarfélagsins og aðrir velunnarar verði duglegir að nýta sér þessa möguleika á síðunni. Það er von að nýja heimasíðan stuðli að auknu upplýsingaflæði og gegnsærri stjórnsýslu,“ segir í tilkynningu frá Borgarbyggð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir