Árni Friðriksson RE-200 mun líklega einn leita loðnu. Ljósm. Vigfús Markússon.

Kergja veldur því að lítil loðnuleit mun eiga sér stað

Ekkert skip hefur enn haldið til loðnuleitar við Íslandsstrendur. Stjórnvöld hafa ekki yfir fullnægjandi skipakosti að ráða sem þarf til leitar og hyggjast heldur ekki nýta sér aðra kosti í stöðunni, sem þeim þó stendur til boða; það er að semja við aðila um að annast hluta verkefnisins. Slíkt fyrirkomulag er þó vel þekkt. Að óbreyttu eru því ekki líkur á loðnuveiðum í vetur. Í tilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi segir m.a: „Andvaraleysi stjórnvalda verður að teljast heldur nöturlegt; fyrir fyrirtæki sem fjárfest hafa í skipum, búnaði og markaðssetningu fyrir milljarða króna, fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra, fyrir sveitarfélög og fyrir samfélagið allt.“

Þá segir í tilkynningunni að mælingar á grundvelli aflareglu loðnu séu erfiðar í framkvæmd og krefjast mikils skipatíma, enda veður hér við land válynd og loðnan dyntótt. „Nú er hins vegar svo komið að stjórnvöld hafa aðeins til umráða eitt hafrannsóknaskip, Árna Friðriksson. Miðað við þær kröfur sem gildandi aflaregla gerir til loðnuleitar, þá dugir það skip eitt og sér, ekki til þess að ná heildstæðri mælingu þannig að líkur séu á því að loðnukvóti verði gefinn út. Nauðsynlegt er að hafa fleiri skip við mælingu á loðnu, helst þrjú til fjögur.“ Þá harma samtökin að þrátt fyrir að verðmæti loðnunnar hlaupi á tugum milljarða króna á ári þá líti stjórnvöld á hafrannsóknir sem kostnað, en ekki grunnforsenda verðmætasköpunar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir