Tíu efstu í valinu á Íþróttamanni Borgarfjarðar 2019. Bjarki Pétursson golfari fremst í miðju.

Bjarki er íþróttamaður Borgarfjarðar 2019

Fjölmenni var mætt í Hjálmaklett í Borgarnesi síðdegis í gær þegar uppskeruhátíð íþróttafólks fór þar fram á vegum Ungmennasambands Borgarfjarðar. Auk þess sem kjöri íþróttamanns Borgarfjarðar var lýst, veittu nokkur aðildarfélög UMSB og hestamannafélagið Borgfirðingur viðurkenningar. Einnig voru veitt verðlaun úr Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar. Það voru þeir Bragi Þór Svavarsson sambandsstjóri og Sigurður Guðmundssonar framkvæmdastjóri UMSB sem stýrðu athöfninni.

Bjarki Pétursson golfari var kjörinn íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2019.  Bjarki stóð sig vel á árinu en hann var í sigurliði Kent State í Mid-American Conference 2019. Hann spilar fyrir hönd Íslands á Evrópumóti einstaklinga, liða í Austurríki og í Svíþjóð. Bjarki var sá áhugamannakylfingur sem var á besta skori í atvinnumannamóti í Finnlandi sem er á vegum Nordic League mótaraðarinnar. Bjarki er einnig  einn fimm Íslendinga sem hafa unnið sér inn keppnisrétt í Challange Tour mótaröðinni. Hann var eini áhugakylfingurinn í heiminum árið 2019 sem komst í gegnum 2. stig og spilaði á 3. stigi fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Um er að ræða sterkustu mótaröð í Evrópu og næst sterkustu í heiminum.

Kjörið á íþróttmanni Borgarfjarðar var spennandi þar sem afar litlu munaði á stigum milli íþróttamanna. Alls voru tíu íþróttamenn tilnefndir og röðuðust fimm efstu sætin þannig:

  1. Bjarki Pétursson – golf
  2. Alexandrea Rán Guðnýjardóttir – kraftlyftingar
  3. Bjarni Guðmann Jónsson – körfuknattleikur
  4. Helgi Guðjónsson – knattspyrna
  5. Brynjar Snær Pálsson – knattspyrna

Aðrir sem tilnefndir voru í stafrófsröð: Birgitta Dröfn Björnsdóttir fyrir dans, Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir fyrir frjálsar íþróttir, Kristín Þórhallsdóttir fyrir kraftlyftingar, Randi Holaker fyrir hestaíþróttir og Sigursteinn Ásgeirsson fyrir frjálsar íþróttir.

Minningarsjóður

Einnig var viðurkenning úr minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar afhent. Í ár var það Almari Orri Kristinsson körfuboltapiltur í Borgarnesi sem hlaut þá viðurkenningu. Foreldrar Auðuns, þau Kristmar Ólafsson og Íris Bjarnadóttir afhentu Almari farandbikar og eignarbikar, en þetta var í 25. skipti sem Auðuns er minnst með úthlutun úr styrktarsjóðnum, en Auðunn var afar efnilegur íþróttamaður þegar hann lést í bílslysi 14 ára gamall.

Aðrar viðurkenningar

Maraþonbikarinn fékk Ingveldur Herdís Ingibergsdóttir, Inga Dísa, fyrir gott maraþonhlaup á árinu 2019.

Hestamannafélagið Borgfirðingur afhenti Kolbrúnu Kötlu Halldórsdóttur sérstaka viðurkenningu félagsins fyrir góðan árangur á árinu 2019 en hún komst á verðlaunapall á flestum þeim mótum sem hún keppti á á árinu.

Auk þess veittu aðildarfélögin Umf. Íslendingur, Umf. Reykdælir og frjálsíþróttafélag UMSB íþróttafólki sínu viðurkenningar og verðlaun. Íþróttamaður Umf. Íslendings er dansarinn Birgitta Dröfn Björnsdóttir, Íþróttamaður Umf. Reykdæla er Lisbeth Inga Kristófersdóttir og Frjálsíþróttafélag UMSB veitti Sigursteini Ásgeirssyni viðurkenningu sem frjálsíþróttamaður ársins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir