Sigursveitin. F.v. Karl, Guðmundur, Tryggvi og Hallgrímur. Ljósm. Skessuhorn/mm

Sveit Guðmundar er Vesturlandsmeistari í bridds

Sameiginlegt Vesturlands- og Vestfjarðamót í sveitakeppni í bridds var spilað á Akranesi síðastliðinn föstudag og í gær. Á þessu árlega tveggja daga móti er spilað um titilinn Vesturlandsmeistarar í sveitakeppni, en jafnframt er á mótinu spilað um keppnisrétt á Íslandsmeistaramóti. Þar eiga fimm sveitir af Vesturlandi keppnisrétt og tvær af Vestfjörðum. Úrslit á mótinu urðu afgerandi. Vesturlandsmeistarar með miklum yfirburðum varð sveit Guðmundar Ólafssonar með 121,72 stig. Með Guðmundi í sveit spiluðu þeir Hallgrímur Rögnvaldsson, Karl Alfreðsson og Tryggvi Bjarnason. Í öðru sæti varð Skákfélagið, sveit Guðna Jósefs, Hlöðvers, Þórarins og Sigurðar Páls, en nokkrir þeirra eiga ættir að rekja á Vestfirðina. Stigafjöldi þeirra var 104,11. Í þriðja sæti varð gestasveit úr Reykjavík, sveit Unnars Atla með 101,49 stig. Fjórða varð sveit Einars Guðmundssonar á Akranesi með 98,15 stig og fimmta varð gestasveit Guðlaugs Bessasonar með 95,23 stig. Auk fyrrgreindra sigursveita af Vesturlandi öðluðust keppnisrétt á Íslandsmóti fyrir hönd Vesturlands sveit Ungliðahreyfingarinnar og sveit KB-Vírnets.

Líkar þetta

Fleiri fréttir