Andlát – Magnús Óskarsson

Magnús Óskarsson fyrrverandi kennari og tilraunastjóri  á Hvanneyri er látinn. Hann lést 28. desember, á 93. aldursári. Hann var fæddur á Saurum í Hraunhreppi 9. júlí 1927, sonur hjónanna Óskars Eggertssonar og Guðrúnar Einarsdóttur, en ólst að mestu upp í Kópavogi þar sem faðir hans var bústjóri.

Magnús lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1950 og búfræðikandidatsprófi frá sama skóla árið 1953. Á árunum 1953-55 var hann við nám  og störf í Danmörku en réðist til starfa við Bændaskólann á Hvanneyri árið 1955 og starfaði þar allan sinn starfsferil sem kennari og tilraunastjóri. Magnús var virtur og dáður kennari og með sínu hógværa fasi og látlausa viðmóti ávann hann sér virðingu nemenda og traust.

Á sviði rannsókna og tilraunastarfs naut Magnús ekki síður virðingar samferðamanna. Nákvæmni í vinnubrögðum og skilvirkni voru hans aðalsmerki. Þá var hann frumkvöðull og óragur við að prófa nýjar og áður óþekktar tegundir einkanlega á sviði matjurta.  Hann samdi kennslubækur fyrir bændaskólana og ritaði fjölda greina um jarðrækt og matjurtarækt auk þess að flytja erindi og fyrirlestra á ráðstefnum landbúnaðarins.

Auk starfa sinna við kennslu og rannsóknir var Magnús virkur á sviði félagsmála bæði fyrir samfélag sitt og á fagsviði sínu. Hann sat í hreppsnefnd Andakílshrepp um sextán ára skeið. Átti sæti í Tilraunaráði landbúnaðarins og Búfræðslunefnd um árabil auk fjölda nefnda um margvísleg málefni bæði félagsleg og fagleg. Þar eins og á sviði fræðanna naut hann virðingar og trausts.

Með Magnúsi Óskarssyni er genginn einn af máttarólpum í starfssögu Bændaskólans á Hvanneyri og  frumherji í íslenskri tilrauna- og ræktunarsögu.

 

-Magnús B Jónsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir