Ljósm. úr safni/ þg.

Ýmis nýmæli í nýjum umferðarlögum

Ný umferðarlög tóku gildi nú um áramótin og þar er ýmis nýmæli að finna. Til að mynda skulu lögboðin ökuljós vera kveikt bæði að framan og aftan, óháð aðstæðum, en dagljósabúnaður fjölmargra bíla er þannig að ljós kvikna ekki að aftan ef ljósabúnaðurinn er stilltur á sjálfvirkni. Notkun snjalltækja er óheimilt undir stýri og gildir það jafnt um ökumenn vélknúinna ökutækja og hjólreiðamenn.

Létt bifhjól í flokki 1, til dæmis svokallaðar rafmagnsvespur og hjól sem ná að hámarki 25 km hraða á klst., verða skráningar- og skoðunarskyld. Eftir sem áður mega 13 ára og eldri aka þeim á gangstéttum og víðar. Enn hefur ekki verið útfært hvernig staðið verður að skráningu þessara ökutækja. Þá er í umferðarlögum sérstaklega kveðið á um að umferðarfræðsla skuli fara fram í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum.

Leyfilegt áfengismagn í blóði lækkar úr hálfu prómilli í 0,2 prómill. Sem fyrr verður þó aðeins refsað ef magnið fer yfir hálft prómill, en akstur stöðvaður við 0,2 prómill. Þá er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um vanhæfismörk lyfja sem hafa áhrif á aksturshæfni. Þá verður lögreglu heimilt að afturkalla ökuréttindi ökumanns tímabundið í þrjá mánuði ef vafi leikur á að hann uppfylli heilbrigðisskilyrði til að fá útgefið ökuskírteini. Hann skal svo gangast undir mat á aksturshæfni undir umsjón trúnaðarlæknis samgöngustofu og verða réttindi ekki gild fyrr en slíkt mat hefur farið fram. Þá er víðtækara ákvæði í lögunum um þá sem hafa verið sviptir ökuréttindum og þurfa að sækja sérstakt námskeið á vegum Samgöngustofu.

Hámarkshraði í vistgötum lækkar niður í 10 km/klst. og ekki er lengur heimilt að veita undanþágu frá notkun bílvelta í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem aka má hraðar en 80 km á klst.

Veghaldara er heimilað að takmarka eða banna umferð um stundarsakir ef mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta talin á að svo verði.

Hjólreiðamönnum er heimilt að hjóla á miðri akrein á götum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst., en almennt skal hann halda sig hægra megin á akrein sem er lengst til hægri á veginum. Ef ökumaður ætlar að beygja þvert á hjólarein skal hann veita hjólandi umferð forgang. Hjálmaskylda barna er færð í lög og nær til barna 16 ára og yngri, í stað 15 ára áður. Hjólreiðamönnum er gert að gefa gangandi vegfarendum hljóðmerki þegar hann nálgast þá, ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.

Ítarlegt yfirlit yfir helstu nýjungar í nýjum umferðarlögum má finna á vef Samgöngustofu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir