
Víðtæk leit í dag
Vel á annað hundrað björgunarsveitamanna er nú í Hnappadal á Snæfellsnesi við leit að Andris Kalvans, sem saknað hefur síðan í lok árs. Koma leitarhópar Landsbjargar af Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Húnavatnssýslu. Leitarsvæðið miðast við Heydal og nærliggjandi svæði. Atli Sveinn Svansson, formaður björgunarsveitarinnar Elliða, er nú staddur á toppi Hrútaborgar. Hann segir aðstæður til leitar ágætar, veður sé stillt í augnablikinu. Þó hefur bætt heldur í snjó síðan í gær, þegar Atli var einnig í hópi leitarmanna.
Björgunarsveitir leita á landi og skipa sér niður í hópa ýmist í sérhæfðum gönguhópum eða fjallabjörgunarhópum þegar farið er um mesta brattlendið. Einnig eru sérhæfðir leitarhundar með í för. Til stendur að leita fram í myrkur í dag en útlit með veður næstu daga gefur ekki tilefni til að hægt verði að skipuleggja leit af þeirri stærðargráðu sem er í dag og var síðastliðinn mánudag. Á morgun laugardag er til að mynda spáð mjög slæmu veðri um allt vestanvert landið og hefur appelsínugul viðvörun verið gefin út vegna hvassviðris og snjókomu.