Í hópnum var m.a. þessi ómarkaða kind á þriðja vetur ásamt dóttur sinni. Ljósm. Snorri Jóhannesson.

Þriggja vetra í fyrsta sinn undir manna hendur

Við eftirgrennslan feðganna Kolbeins og Höskuldar bænda í Stóra-Ási fundu þeir í gær fé í landi Húsafells. Tuttugu kindur og eitt lamb úr Húnavatnssýslu. Oft hefur það reynst erfitt að hafa hendur í hári kinda sem sjá hag sínum best borgið með að forðast afskipti mannfólksins og halda því til í Húsafellsskógi og fjöllunum þar í kring. Sumar eru lunknari í þeim feluleik en aðrar. Feðgarnir kölluðu til aðstoð fleiri smala auk fjárhunda og náðist að handsama féð og færa til byggða. Í hópnum var m.a. ómörkuð kind á þriðja vetur með væna gimbur. Kind þessi hefur því ekki einvörðungu fæðst á fjöllum heldur haldið sig þar í tvö og hálft ár laus við afskipti fólks. Hún var því að sjá menn í fyrsta skipti nú, í það minnsta í návígi.

Að sögn Snorra Jóhannessonar bónda á Augastöðum fannst fjárhópurinn norðantil í Selfjallinu, sitthvorum megin við Mógilið. Snorri gerir ráð fyrir því að enn leynist kindur í Húsafellslandi, enda í seinni tíð ekki náðst að hreinsmala þar. Aðspurður segir hann að ómerkingum af þessu tagi, sem ekki er hægt að færa sönnur á eignarhald, sé lógað. Sömuleiðis gimbrinni úr Húnavatnssýslu sem kemur af svæði sem riða hefur greinst á.

Líkar þetta

Fleiri fréttir