Margrét Jónsdóttir Njarðvík verðandi rektor Háskólans á Bifröst.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík ráðin rektor Háskólans á Bifröst

Margrét Jónsdóttir Njarðvík hefur verið ráðin rektor Háskólans á Bifröst frá og með 1. júní 2020, en hún var valin úr hópi sjö umsækjenda. Eins og fram hefur komið lætur Vilhjálmur Egilsson þá af starfi rektors. Margrét er með doktorspróf í spænsku máli og bókmenntum frá Princeton University og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur víðtæka reynslu af alþjóðastarfi á menntasviði, sem og úr íslenskum háskólum en hún var lektor í spænsku við Háskóla Íslands og síðan dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík á árunum 1995-2007. Árið 2007 tók hún við starfi forstöðumanns alþjóðasviðs Háskólans í Reykjavík þar sem hún mótaði og leiddi m.a. alþjóðastarf og erlent markaðsstarf skólans.

Margrét stofnaði árið 2011 fyrirtækið Mundo sem hún hefur síðan stýrt en fyrirtækið sérhæfir sig m.a. í þjálfunarferðum íslenskra kennara erlendis, skiptinámi og sumarbúðum ungmenna erlendis og annast ráðgjöf í alþjóðamálum. Má þar m.a. nefna úttekt á þróunarsjóði EFTA á Spáni.

Margrét hefur setið í stjórnum fyrirtækja, m.a. sem stjórnarformaður Hótels Sigluness á Siglufirði og í Forlaginu JPV. Hún situr í stjórn Félags kvenna í atvinnurekstri, gegnir formennsku í spænsk-íslenska viðskiptaráðinu auk þess sem hún var stjórnarmaður í Fulbright á Íslandi um fimm ára skeið og hefur frá árinu 2001 verið vararæðismaður Spánar hér á landi. Konungur Spánar veitti Margréti heiðursorðuna Isabela la Católica fyrir þau störf.

Margrét er gift Hálfdáni Sveinssyni og á hún þrjá syni og tvö stjúpbörn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira