Færanleg stjórnstöð leitar. Ljósmyndir: Landsbjörg.

Leit í Hnappadal var frestað í nótt vegna veðurs

Eftir að veður tók að versna í nótt var hlé gert á umfangsmikilli leit að manni sem saknað er í Hnappadal á Snæfellsnesi. Á þriðja hundrað björgunarsveitarmanna af öllu vestanverðu landinu tók þátt í leitinni í gærkvöldi og fram á nótt, en auk þess leitar- og sporhundar. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisstjórn Landsbjargar var ákveðið á þriðja tímanum í nótt að gera hlé á leitinni vegna veðurs og aðstæðna. Mikil úrkoma var þá á svæðinu og lítið skyggni. Staðan verður endurmetin nú með morgninum.

Það var lögreglan á Vesturlandi sem óskaði eftir aðstoð björgunarsveita á svæðinu á sjöunda tímanum í gærkvöldi við leitina, eftir að farið var að óttast um manninn. Mannlaus bíll hafði fundist á þessum slóðum fyrir tveimur dögum og ekki hefur náðst í eiganda hans. Á áttunda tímanum í gærkvöldi var svo óskað eftir frekari aðstoð björgunarsveita allt norður í Húnavatnssýslur og austur að Þjórsá. Beindist leitin að Hnappadal, m.a. Kolbeinsstaðafjalli og svæðinu í kringum Haffjarðará og nærliggjandi svæði.

Meðfylgjandi myndir frá vettvangi stjórnstöðvar leitarinnar eru frá Landsbjörgu.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir