Svipmynd frá núverandi urðunarrein í Fíflholtum. Ljósm. mm.

Þrátt fyrir gjaldskrárhækkun er sorpurðun ódýr á Vesturlandi

Á fundi stjórnar Sorpurðunar Vesturlands 11. desember síðastliðinn var samþykkt að hækka gjaldskrá fyrir sorpurðun frá og með áramótum. Jafnframt voru samþykktar veigamiklar breytingar sem fela í sér fjölgun gjaldskrárflokka eftir tegundum flokkaðs úrgangs. Eftir þá breytingu verða 18 gjaldflokkar fyrir sorp í Fíflholtum. Lægst er innheimt fyrir spæni og kurlað timburð 3 krónur fyrir kíló, en hæsta gjald er tekið fyrir urðun veiðarfæra, eða 25 krónur á kíló. Gjald fyrir almennt heimilissorp, þ.e. blandaðan úrgang sem safnað er í sveitarfélögum, er 10 krónur fyrir kílóið, hækkar úr 8,10 krónum fyrir kg. Það jafngildir 23,46% hækkun frá gjaldskrá 2019. Ekki var einhugur um afgreiðslu hækkunar á gjaldskrá og greiddu fimm stjórnarmenn atkvæði með hækkun en tveir voru á móti. Bæjarráð Akraness mótmælir hækkuninni, þrátt fyrir að fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar í stjórn Sorpurðunar Vesturlands hafi samþykkt hækkunina.

Búnaður vegna aukinna krafna

Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ er formaður stjórnar Sorpurðunar Vesturlands. Hann segir í samtali við Skessuhorn að ástæða hækkunar á gjaldskrá fyrir urðun í Fíflholtum nú megi rekja til aukinna krafna sem ríkið setur um sorpurðun almennt. Til að standa undir kröfum þurfi að fara í ýmsar fjárfestingar í Fíflholtum á næstu þremur árum. Hann nefnir að endurnýja þurfi troðara, koma upp brennsluofni fyrir dýrahræ, ný urðunarrein þarf að fara í hönnunarferli og umhverfismat og áfram þurfi að vinna að bættum fokvörnum og gróðursetningu á svæðinu. „Ríkið setur stífar kröfur um urðun sorps sem okkur er uppálagt að verða við. Valið stóð því um hvort sveitarfélögin sem að Sorpurðun Vesturlands standa tækju sjálf á sig aukin útgjöld, farið yrði í lántöku, eða að gjaldskráin fyrir urðunarstaðinn yrði hækkuð, sem er náttúrlega hreinlegasta afgreiðslan,“ segir Kristinn. Hann telur þó að gjaldskrárhækkun nú sé hófleg og áfram verði ódýrt á landsvísu að urða sorp í Fíflholtum. „Ég vil meina að það séu forréttindi okkar á Vesturlandi að hafa hagkvæman og góðan urðunarstað eins og er rekinn í Fífholtum. Ég bendi á til samanburðar að Sunnlendingar þurfa að greiða 59 krónur fyrir kílóið af sorpi til urðunar erlendis og hjá Sorpu á höfuðborgarsvæðinu er urðunargjaldið 17,42 krónur á kíló á sama tíma og það verður 10 krónur nú eftir áramót hjá okkur. Hlutverk Sorpurðunar Vesturlands er að mæta þeim kröfum sem ríkisvaldið setur urðunarstöðum sem okkar og því er óhjákvæmilegt að ráðast í ýmsar fjárfestingar á svæðinu,“ ítrekar Kristinn.

Akurnesingar mótfallnir

Á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar 19. desember síðastliðinn var samþykkt bókun þar sem ákvörðun Sorpurðunar Vesturlands frá 11. desember um 29% hækkun á gjaldskrá er mótmælt. „Bæjarráð telur að ekki liggi fyrir nægjanleg gögn til rökstuðnings hækkuninni en þar sem um þjónustugjöld er að ræða þarf slíkt ávallt að liggja til grundvallar slíkri ákvörðun og er einnig í andstöðu við ákvæði lífskjarasamninganna. Bæjarráð er með þessu ekki að gera lítið úr þörf á auknum fjárfestingum í þessum mikilvæga málaflokki, en horfa þarf til forgangsröðunar og vinna áætlanir til lengri tíma samhliða því,“ segir í bókun bæjarráðs Akraness.

„Hef talað fyrir daufum eyrum“

Kristinn Jónasson harmar að ekki ríki einhugur um fyrirhugaða gjaldskrárhækkun í Fíflholtum. „Félagar mínir í bæjarráðinu á Akranesi hafa nú mótmælt þessu með bókun. Mér þykir leitt að þeir fallist ekki á þau rök sem liggja að baki ákvörðun um hækkun gjaldskrár. Ég get hins vegar glatt þá með að ég mun láta af embætti formanns stjórnar Sorpurðunar Vesturlands á næsta aðalfundi, en er jafnframt hryggur yfir að ég hef talað fyrir daufum eyrum um mikilvægi þess að við byggjum urðunarstaðinn í Fíflholtum áfram upp á næstu þremur árum með myndarlegum hætti. Það þarf að finna í sameiningu góða lausn í sorpmálum sem er í senn fjárhagslega hagkvæm og umhverfisvæn fyrir svæðið til framtíðar,“ segir Kristinn í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir