Breytingar á rekstri almenningssamgangna á Vesturlandi

Nú um áramótin munu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) láta af umsjón með almenningssamgöngum og tekur Vegagerðin hana yfir frá og með 1. janúar nk, eins og fram kom í annarri frétt hér á vefnum í morgun.  „SSV tók þetta verkefni yfir árið 2012, líkt og önnur landshlutasamtök sveitarfélaga. Samningar um verkefnið runnu út í árslok 2018, en voru framlengdir um eitt ár. Eftir langar viðræður um áframhaldandi umsjón landshlutasamtakanna með almenningssamgöngum á milli sveitarfélaga varð það niðurstaðan síðastliðið sumar að landshlutasamtökin voru ekki reiðbúin til þess að halda umsjón með verkefninu áfram miðað við þær forsendur sem fyrir lágu,“ segir Páll S Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV í samtali við Skessuhorn.

Á ábyrgð ríkisins

Farþegar munu þó ekki verða varir við breytingar á rekstri því Vegagerðin ekur um áramótin við öllum landsbyggðarleiðum Strætó. Um er að ræða leiðir frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði, Akureyrar, Egilsstaða, Snæfellsness og Hólmavíkur.  Óvíst er hvort Vegagerðin heldur áfram samstarfinu við Strætó, en Strætó innheimtir um 100 milljónir króna árlega fyrir þjónustuna. Páll segir að tillagan sem var til umræðu milli landshlutafélaganna og Vegagerðarinnar hafi gert ráð fyrir því að að stofnað yrði sameiginlegt félag Vegagerðarinnar og landhlutasamtakanna og báðir aðilar myndu koma að fjármögnun á rekstri þjónustuskrifstofu sem héldi utan um verkefnið, auk þess sem báðir aðilar myndu bera hlutfallslega ábyrgð af mögulegum hallarekstri félagsins. „Þar með væru landshlutasamtök sveitarfélaga komin í fjárhagslega ábyrgð fyrir rekstri almenningssamgangna á milli sveitarfélaga og vilji sveitarfélaganna stóð ekki til þess. Landshlutasamtökin og sveitarfélögin á landsbyggðinni hafa litið svo á að almenningssamgöngur á milli sveitarfélaga væru á ábyrgð ríkisins enda hafa þær um árabil verið fjármagnaðar af ríkinu,“ segir Páll.

Hefur gengið vel

Vegagerðin hefur því að undanförnu búið sig undir að taka við verkefninu. „Það liggur fyrir að skipulag almenningssamgangna á Vesturlandi verður með óbreyttum hætti árið 2020 og sömu aðilar munu aka þær leiðir sem þeir hafa ekið undanfarin sjö ár. Hins vegar mun Vegagerðin bjóða út aksturinn á árinu 2020 og akstri í samræmi við það útboð verður væntanlega komið á í byrjun árs 2021.“ Páll segir að uppbygging og rekstur almenningssamgangna undanfarin ár á Vesturlandi hafi um margt gengið ágætlega. „Í könnunum sem gerðar hafa verið hefur komið fram að íbúar hafa verið þokkalega sáttir með leiðakerfið sem tekið var upp 2012. Reksturinn var erfiður á fyrsta árinu, en eftir breytingar sem gerðar voru árið 2013 náðist að snúa honum til betri vegar og var hann í jafnvægi fram til ársins 2017. Árin 2017 og 2018 var nokkur halli á rekstrinum, en auknar fjárveitingar frá Vegagerðinni á árinu 2019 gera það að verkum að reksturinn verður í jafnvægi árið 2019.  Við höfum rekið fimm leiðir og hafa árlega á bilinu 140 þúsund til 175 þúsund farþegar verið að nýta sér almenningssamgöngur á okkar leiðum, en leið 57 Reykjavík-Akureyri hefur verið langmest nýtt.  Þar munar mestu að fjöldi Akurnesinga hefur verið að nýta sér strætóinn með reglubundnum hætti. Flestir voru farþegarnir árin 2014 og 2015.“

„Við viljum nota tækifærið á þessum tímamótum til að þakka öllum þeim sem við höfum átt samstarf við; Vegagerðina, Strætó bs., verktökunum sem hafa séð um aksturinn og farþegunum sem hafa nýtt sér þessa þjónustu fyrir samferðina undanfarin sjö ár. Við teljum jafnframt mjög mikilvægt að þó svo að Vegagerðin hafi nú tekið þetta verkefni yfir að hún muni í framtíðinni vera í góðu samstarfi við heimaaðila um skipulag leiðakerfis og tíðni ferða,“ segir Páll S Brynjarsson að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir