Júlían er Íþróttamaður ársins 2019

Júlían J.K. Jóhannsson kraftlyftingamaður var í gærkvöldi útnefndur Íþróttamaður ársins 2019 af Samtökum íþróttafréttamanna. Martin Hermannsson körfuknattleiksmaður hjá Alba Berlín hafnaði í öðru sæti og knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir varð í þriðja.

Júlían hefur haslað sér völl sem einn af sterkustu keppendum heims í +120 kg flokki. Hann vann til bronsverðlauna fyrir samanlagðan árangur á heimsmeistaramóti í Dubaí í nóvember en þar bætti hann jafnframt sitt eigið heimsmet í réttstöðulyftu með 405,5 kg og tryggði sér gullverðlaun í greininni. Heildarþyngdin sem Júlían lyfti á heimsmeistaramótinu voru 1148 kg., en það er mesta þyngd sem íslenskur kraftlyftingamaður hefur lyft. Í maí hlaut Júlían silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti fyrir samanlagðan árangur en hlaut þar einnig gull í réttstöðu. Hann lýkur í ár sínu þriðja keppnistímabili í opnum flokki og er í þriðja sæti á heimslista IPF Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +120kg. flokki.

Það íþróttafólk sem fékk flest atkvæði í kjörinu þetta árið og var í efstu tíu sætunum er í stafrófsröð:

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar

Arnar Davíð Jónsson, keilari úr Keilafélagi Reykjavíkur

Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni

Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona hjá Rosengård í Svíþjóð

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, spretthlaupari úr ÍR

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur

Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton

Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni

Martin Hermannsson, körfuboltamaður hjá Alba Berlín í Þýskalandi

Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Wolfsburg í Þýskalandi

Samtök íþróttafréttamanna veittu nú í áttunda sinn viðurkenningu til þjálfara ársins og var það Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Gróttu í knattspyrnu, sem hlaut þann heiður. Viðurkenning til liðs ársins fór til kvennaliðs Vals í körfuknattleik.

Loks var Alfreð Gíslason útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Alfreð er nítjándi einstaklingurinn sem ÍSÍ útnefnir í höllina.

Vestlendingar í fremstu röð

Fyrr um kvöldið fór fram verðlaunaafhending til íþróttafólks sem sérsambönd ÍSÍ og íþróttanefndir höfðu tilnefnt úr sínum röðum. Í þeirra röðum voru Valdís Þóra Jónsdóttir kylfingur úr Leyni sem tilnefnd var af GSÍ sem golfkona ársins fyrir frábæran árangur á sterkustu mótum kylfinga á heimsvísu. Borgnesingurinn Kristín Sif Björgvinsdóttir var tilnefnd sem hnefaleikakona ársins en hún hreppti m.a. silfurverðlaun á Norðurlandamótinu í hnefaleikum annað árið í röð.

Þrefaldur heimsmeistari

Loks verður að geta Skagfirðingsins Jóhanns Rúnars Skúlasonar sem tilnefndur var sem knapi ársins í fjórða skipti. Jóhann vann það einstaka afrek á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín 2019 að vinna þrefaldan heimsmeistaratitil á hestinum Finnboga frá Minni-Reykjum. Það vakti töluverða reiði í íslenska hestaheiminum að Jóhann Rúnar skyldi ekki verða kjörinn í hóp tíu efstu íþróttamanna landsins fyrir þennan árangur. Stjórn LH sendi frá sér harðorða yfirlýsingu vegna þess.

Íþróttafólk sérsambanda ÍSÍ sem tilnefnt var til verðlauna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira