
Andlát – Vilhjálmur Einarsson skólameistari
Vilhjálmur Einarsson fyrrum skólameistari og íþróttakappi lést á Landspítalanum í Reykjavík í gær, 85 ára að aldri. Vilhjálmur var einn fremsti þrístökkvari í heimi á árunum 1956-1962. Frægasta afrek sitt vann Vilhjálmur þegar hann vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956 og var um leið fyrstur Íslendinga til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum. Þá hefur enginn verið kjörinn íþróttamaður ársins oftar en Vilhjálmur. Vilhjálmur var lengi skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti og var meðal annars einn af frumkvöðlum Húsafellsmótanna. Hann varð síðar fyrsti skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum og hefur búið á Egilsstöðum síðan.
Eftirlifandi eiginkona Vilhjálms er Gerður Unndórsdóttir, en synir þeirra hjóna eru sex talsins. Í tilkynningu frá fjölskyldu Vilhjálms kemur fram að útför Vilhjálms fari fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík föstudaginn 10. janúar klukkan 15.