Gullakista á Byggðasafni Dalamanna. Í henni er að finna hefðbundin leikföng barna fyrr á tímum; horn, leggi, bein, skeljar og kuðunga. Allt sem þarf til að hefja búskap. Kista þessi er úr búi Sesselju Bergþórsdóttur (1871-1958) húsfreyju í Litlu-Tungu á Fellsströnd. Ljósm. Byggðasafn Dalamanna.

Síðustu opnunardagar Byggðasafnsins á Laugum

Í dag og næstkomandi sunnudag eru síðustu dagarnir sem Byggðasafn Dalamanna verður opið á Laugum í Sælingsdal. Af því tilefni verður opið frá klukkan 13-17 báða dagana, frítt inn á safnið, húslestur og heitt á könnunni. Á nýju ári verður síðan hafist handa við að pakka safnkostinum niður. Frá þessu er greint á heimasíðu safnsins. Safnkosti verður nú pakkað saman og komið til geymslu til bráðabirgða þar til búið verður að finna safninu nýtt húsnæði. Meðal annars hefur verið horft til gamla skólahússins á Staðarfelli, en það eru í eigu ríkissjóðs. Engir samningar liggja þó fyrir um nýtingu þess.

„Skipulögð söfnun muna í Dölum fyrir væntanlegt Byggðasafn Dalamanna hófst sumarið 1968. Fyrsta sýning safnsins var í einu sýningaborði sumarið 1974 í tengslum við þjóðhátíð. Á Laugum voru fyrstu sýningar safnsins opnaðar sumardaginn fyrsta 1977. Sumardaginn fyrsta 1979 var safnið vígt af þáverandi forseta Íslands, Kristjáni Eldjárn.“ Þá segir á heimasíðu byggðasafnsins að saga Byggðasafns Dalamanna verði ekki sögð án þess að geta Magnúsar Gestssonar (1909-2000) frá Ormsstöðum. „Magnús var frumkvöðull að stofnun safnsins. Fór um Dalina sumarið 1968 og safnaði munum. Hann gekk frá húsnæði safnsins til sýningarhalds, smíðaði sýningarkassa, dyttaði að munum og setti upp sýningar. Magnús var safnvörður frá stofnun til 1998, þá 88 ára að aldri. Magnús var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1985 fyrir störf sín í þágu Byggðasafns Dalamanna.

Í ár á safnið 40 ára vígsluafmæli og 51 ár síðan söfnun muna hófst. Á þessum 40-50 árum hefur margt breyst í starfsemi safna, þar á meðal kröfur til húsnæðis. Heitavatnslagnir í lofti, leysinga- og rigningavatn hefur flætt inn á safnið, skortur á geymslum, vinnuaðstöðu og fleira hefur hamlað allri starfsemi og þróun. Tímabært er því að koma safnkostinum í öruggt skjól með von um að með hækkandi sól og hæfilegri bjartsýni fáist nýtt húsnæði til framtíðar,“ segir í færslu á heimasíðu Byggðasafns Dalamanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir