Jóhannes Simonsen við bát sinn Guðmund Þór sem hann keypti nýverið frá Breiðdalsvík.

Lýsa vantrausti á sjávarútvegsráðherra vegna reglugerðar um hrognkelsaveiðar

Á hverju ári gefur sjávarútvegsráðherra út reglugerð um veiðar á grásleppu. Á undanförnum árum hefur ekki verið mikil efnisleg breyting á reglum sem gilt hafa um veiðarnar. Föstudaginn 20. desember síðastliðinn voru sett í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um hrognkelsaveiðar fyrir árið 2020. Í henni felst kúvending á þeim reglum sem grásleppusjómenn við Íslandsstrendur hafa þurft að sæta. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að breytingarnar séu gerðar til að sporna við meðafla. „Helstu breytingarnar eru afnám svæðaskiptingar, að undanskildum Breiðarfirði, lenging veiðitímabils, vitjunartími styttur, fækkun neta, hert á kröfum um að bátar séu með aflaheimildir fyrir áætluðum meðafla, fellt út ákvæði um að skila veiðiskýrslu og lagt til að Fiskistofa geti sett eftirlitsmann um borð á kostnað útgerðar ef meðafli er óeðlilegur.“

Í reglugerðardrögunum eru helstu breytingar frá gildandi reglugerð eftirfarandi:

  • Afnám svæðaskiptingar (að undanskildum innanverðum Breiðafirði).
  • Upphafstími veiða verði 1. mars í stað 20. mars.
  • Áður en veiðiferð hefst skal útgerð sjá til þess að báturinn hafi þær aflaheimildir sem dugi fyrir ætluðum meðafla í veiðiferðinni.
  • Grásleppunet skulu dregin eigi síðar en þremur sólarhringum, í stað fjögurra eins og nú er, eftir að þau eru lögð í sjó.
  • Hámarkslengd neta á hvern bát verði stytt um helming verði 3.750 m í stað 7.500 m.
  • Fiskistofu verði heimilt að svipta bát veiðileyfi ef um óeðlilega veiði á botnfisktegundum að ræða þannig að magn botnfiskstegunda í þorskígildum talið sé ítrekað svipað eða meira en magn grásleppuaflans í þorskígildum talið.
  • Fellt er út ákvæði um skil á veiðiskýrslu.
  • Umsóknarfrestur til grásleppuveiða verður frá 15. janúar – 15. febrúar 2020 og verða umsóknir sem berast eftir þann tíma ekki teknar til greina.

Fækka þurfi niður í einn í áhöfn

Grásleppusjómenn eru afar óhressir við þessar breytingartillögur Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra og segja að ef af þeim verður gangi þær að atvinnugreininni dauðri. Stjórn smábátafélagsins Sæljóns á Akranesi fordæmir breytingartillögur ráðherra og gengur svo langt að lýsa vantrausti á Kristján Þór Júlíusson. Í ályktun sem félagið sendir frá sér skömmu fyrir áramót segir að mótmælt sé harðlega þeim breytingum sem fram koma í drögum að reglugerð um hrognkelsaveiðar á árinu 2020 sem birt eru á samráðsgátt stjórnvalda. „Breytingar sem koma fram í þessum drögum eru svo íþyngjandi að þær geta leitt til þess að grásleppuveiðar í Faxaflóa og víðar leggjast af. Undirtónninn í þessum aðgerðum/drögum eru gríðarlegt og hert eftirlit, takmörkuð sóknargeta og hámarkslengd neta á hvern bát verði stytt um helming, verði 3.750 m í stað 7.500 m. Ef þessar tillögur hljóta brautargengi verður afkoma grásleppubáta svo léleg að fækka þarf í áhöfnum grásleppubáta, þannig að þeir verða í flestum tilfellum einungis einn maður.“

Lýsa vantrausti á ráðherra

Jóhannes Simonsen formaður Sæljóns segir í samtali við Skessuhorn reglugerðina ekki vera annað en beina aðför að smábátasjómennsku á Íslandi. „Sú síðasta í langri röð aðgerða og tillagna frá sjávarútvegsráðherra og opinberra aðila til þess að veikja smábátaútgerð á Íslandi. Við lítum á þetta útspil sem herfndaraðgerð af hálfu Kristjáns Þórs Júlíussonar vegna andstöðu okkar við kvótasetningu á grásleppu. Við í Sæljóni höfum lagt tillögur til lausnar á vandamálum varðandi meðafla við grásleppuveiðar, að gefa mönnum kost á að gera hlé á veiðum án dagaskerðingar ef um óeðlilegan meðafla er að ræða. Ráðherra hefur ítrekað hafnað þeim tillögum. Við í stjórn Sæljóns, félags smábátaeigenda á Akranesi, lýsum því yfir vantrausti á sjávarútvegsráðherra Íslands Kristján Þór Júlíusson og skorum á LS að gera slíkt hið sama,“ segir Jóhannes.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira