Í fangelsi fyrir áreitni og árás

Maður var dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir kynferðislega áreigni gegn konu og líkamsárásir gegn henni og annarri konu á Akranesi aðfararnótt 17. apríl 2018. Dómur í málinu var upp kveðinn í Héraðsdómi Vesturlands 20. desember síðastliðinn. Var manninum gefið að sök að hafa áreitt fyrri konuna kynferðislega með því að káfa á brjóstum hennar innan klæða, snúa upp á handlegg hennar, slá hana ítrekuðum höggum á bringu og skera hana á fingri með oddhvössum hlut. Þá var honum einnig gefið að sök að hafa skallað aðra konu ítrekað í andlitið og slá með ól með kúlu á endanum, en höggið hafnaði á vinstri handarbaki hennar. Fyrri konan hlaut skurð á löngutöng, mar á hægri framhandlegg og vinstra brjósti. Hin hlaut skurð ofan augabrúnar, sár í hársverið á hnakka og mar aftan við vinstra eyra, ótilfrært brot á miðhandarbeini vinstri handar, tognun og ofreynslu á hálshrygg, sem og heilahristing.

Dómurinn taldi framburð kvennanna trúverðugan, auk þess sem framburður þeirra var studdur vitnisburði, auk vottorðs og framburðar lækna um áverka brotaþolanna. Ákæri kaus að tjá sig ekki um sakargiftirnar og neitaði að svara spurningum þar að lútandi.

Maðurinn á langan sakaferil að baki, að því er fram kemur í dómnum. Frá árinu 1995 hefur hann verið sakfelldur 17 sinnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og ávana- og fíkniefnalöggjöf, þar af tvisvar áður fyrir líkamsárásir. Síðast var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands í ágúst 2013. Þótti dómnum hæfileg refsing ákærða því ákveðin átta mánaða fangelsisvist. Var honum enn fremur gert að greiða fyrri konunni 500 þúsund króna miskabætur og seinni konunni 400 þúsund króna miskabætur og tæpar 21 þúsund króna bætur vegna útlagðs sjúkrakostnaðar. Honum var einnig gert að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun og þóknun brotaþola.

Líkar þetta

Fleiri fréttir