Arctic Adventures og Into the Glacier í eina sæng á ný

Arctic Adventures hf. og framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund I, hafa gert samkomulag um sameiningu Arctric Adventures og Into the Glacier ehf., sem rekur ísgöngin í Langjökli. Ekkert varð af sameiningu fyrirtækjanna í ársbyrjun 2019 en nú sameinast þau á nýjan leik. Um leið kaupir Arctic Adventures hluti framtakssjóðsins í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu; Óbyggðasetri Íslands, Raufarhóli ehf., Skútusiglingum ehf. og Welcome Entertainment. Þar með verður til stórfyrirtæki í ferðatengdri afþreyingu, með um 400 starfsmenn í öllum landshlutum. Túristi.is greinir frá.

Kaupverðist greiðist með hlutum í Arctic Adventures hf. og verður ITF því stór hlutafi í hinu sameinaða félagi eftir viðskiptin. Félögin verða áfram rekin sjálfstætt, en í nánu samstarfi við Arctic Adventures. „Við getum nýtt krafta félaganna enn betur, náum fram umtalsverðri hagræðingu og aukum slagkraftinn til að muna þegar kemur að sölu og markaðssetningu. Arctic Adventures hefur mjög sterka stöðu á markaði fyrir afþreyingartengda ferðaþjónustu. Sú staða styrkist enn frekar í kjölfar þessara viðskipta og getur fyrirtækið nú boðið upp á fyrsta flokks afþreyingu í öllum landshlutum,“ er haft eftir Helga Júlíussyni, framkvæmdastjóra ITF, á vef Túrista.

Into the Glacier býður sem kunnugt er upp á ferðir í ísgöngin í Langjökli, sem eru stærstu manngerðu ísgöng í heimi. Hátt í 60 þúsund manns heimsóttu göngin á árinu 2019.

Líkar þetta

Fleiri fréttir