Kepptust við að komast af lista þeirra óþekku

Skyrgámur boðaði til opins jólasveinafundar í KM þjónustunni í Búðardal föstudaginn 13. desember. Þar fór hann yfir stærstu mál ársins. Helst var til umræðu listinn yfir þá óþekku en heldur mörg nöfn var þar að finna þetta árið. Gestum gafst kostur á að rýna í listann alræmda og vinna sig af honum með því að leysa þrautir jólasveinanna. Mörgum tókst að bjarga sjálfum sér og jafnvel sínum nánustu af óþekktarlistanum. Enn sitja þó mörg nöfn föst og er það litið alvarlegum augum. Jólasveinafundurinn sendi Skessuhorni fréttatilkynningu þar sem ítrekað er að ennþá sé tími fyrir hina óþekku að bæta fyrir hegðun sína og komast á lista hinna góðu fyrir jólin. Sérstaklega er skorað á þá sem hvað fastast sitja á listanum en þá er helst að finna í hópi sjúkraflutningamanna og…  „þeir vita hverjir þeir eru,“ segir orðrétt í tilkynningunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir