Hægri höndin á Írisi Eddu í dag og svo daginn sem hún fékk að sjá hana í fyrsta skipti eftir slysið.

Lá á spítala í þrjár vikur eftir slys með logandi steikingarfeiti

Íris Edda Steinþórsdóttir er 19 ára Skagastelpa, fædd og uppalin á Akranesi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands síðastliðið vor og byrjaði í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands í haust. Fyrsta önnin í skólanum fór þó ekki eins og til stóð því þriðjudaginn 10. september í haust ætlaði hún ásamt kærastanum sínum að djúpsteikja kjúkling. Þau settu olíu í pott og kveiktu undir. „Við vissum ekki að það gæti verið hættulegt að djúpsteikja og höfðum ekki hugmynd um hvernig ætti að gera það. Við kveikjum því bara undir og bíðum eftir að suðan komi upp, sem gerist náttúrulega ekki,“ segir Íris Edda í samtali við Skessuhorn. Eftir að hafa beðið í nokkurn tíma opnuðu þau pottinn og þá gýs upp eldur. „Það fyrsta sem mér datt í hug var að losa okkur við eldinn með að taka upp pottinn og hlaupa með hann út. Veit nú að það má alls ekki gera. Á leiðinni skvettist á mig bæði eldur og olía,“ segir Íris Edda sem hlaut þriðja stigs bruna á hægri hönd, hægra læri, niður eftir sköflungnum og niður á rist og á ristinni á vinstri fæti og annars stigs bruna á vinstri hönd. „Vinstri höndin logaði en það var samt ekki eins slæmt og hægra megin þar sem olían fór á mig,“ segir Íris Edda. Þess ber að geta að ef kviknar í olíu í potti er best að nota eldvarnarteppi til að kæfa eldinn.

Í Jólablaði Skessuhorns er rætt við Írisi Eddu um afleiðingar slyssins og bataferlið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir