Frumvörp um Hálendisþjóðgarð í samráðsgátt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt tvö frumvörp; um Hálendisþjóðgarð og um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða. Frumvarp um Hálendisþjóðgarð tekur til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar; þjóðlendum og friðlýstum svæðum innan miðhálendisins. „Það er í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa allra þingflokka og stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem vann að undirbúningi stofnunar þjóðgarðsins,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í frumvörpunum er lögð áhersla á að stjórnun Hálendisþjóðgarðs sé bæði hjá ríki og viðkomandi sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að sérstök stjórn, sem í sitji ellefu stjórnarmenn, fari með stjórn þjóðgarðsins og að hún verði að meirihluta skipuð fulltrúum sveitarfélaga, auk félagasamtaka og hagsmunaaðila. Þá verði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrarsvæði og yfir hverju þeirra sérstakt umdæmisráð, skipað fimm fulltrúum sveitarfélaga, auk fulltrúum frá útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og ferðaþjónustuaðilum. Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður verði sjálfstæð eining innan nýrrar stofnunar, Þjóðgarðastofnunar, sbr. drög að frumvarpi um stofnunina sem kynnt hafa verið í samráðsgátt.

Með frumvarpi um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða er gert ráð fyrir að í stað tveggja ríkisstofnana, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum, verði sett á fót ein ný ríkisstofnun. Auk þess er gert ráð fyrir að verkefni Umhverfisstofnunar á sviði náttúruverndar verði færð til stofnunarinnar, auk þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem nú heyrir undir Umhverfisstofnun.

Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin í Samráðsgátt stjórnvalda er til 15. janúar 2020.

Líkar þetta

Fleiri fréttir