Mælt fyrir fjölmiðlafrumvarpi á Alþingi

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum á Alþingi 16. desember síðastliðinn. Markmið þess er að efla lýðræðishlutverk fjölmiðla með því að styðja við ritstjórnir fjölmiðla sem miðla fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. „Með frumvarpinu er leitast við að Ísland skipi sér í hóp hinna Norðurlandanna og fleiri ríkja í Evrópu sem styrkja einkarekna fjölmiðla og stuðla þannig að aukinni fjölbreytni í fjölmiðlun. Fjölmiðlar stuðla að þróun íslenskrar tungu og læsis og eru mikilvægur vettvangur umræðu og skoðanaskipta í lýðræðissamfélagi. Í frumvarpinu er einnig sérstaklega hugað að stöðu héraðsmiðla vegna mikilvægis þeirra fyrir sín nærsamfélög,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Lagabreytingin heimilar að veita einkareknum fjölmiðlum fjárhagslegan stuðning með því að endurgreiða hluta þess kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla fréttatengdu efni. Endurgreiðsluhæfur kostnaður verður bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf. Hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki 18% af fyrrgreindum launakostnaði, þó ekki hærri en 50 milljónir kr. til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Að auki verði heimilt að veita sérstakan stuðning, sem nemur 4% af fyrrgreindum launakostnaði. Þá er reglugerðarheimild um að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu.

Fjölmiðlar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Meðal þeirra eru:

  • Aðalmarkmið fjölmiðilsins skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni og efni hans skal vera fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi.
  • Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar og hafa starfað óslitið í tólf mánuði eða lengur fyrir þann tíma er umsókn berst til fjölmiðlanefndar. Fjölmiðlaveita skal hafa staðið skil á árlegri skýrslugjöf til fjölmiðlanefndar og veitt fullnægjandi gögn og upplýsingar um eignarhald.
  • Gert er ráð fyrir að prentmiðlar komi út að lágmarki fjörutíu og átta sinnum á ári en netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar miðli nýju efni daglega.
  • Fjölmiðlaveita sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda.

Ráðherra skipar úthlutunarnefnd sem annast afgreiðslu umsókna um endurgreiðslur. Þrír nefndarmenn skulu tilnefndir af ríkisendurskoðanda og skulu tveir uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara og einn vera löggiltur endurskoðandi. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Umsókn um endurgreiðslur ásamt fylgigögnum skal send úthlutunarnefndinni eigi síðar en 31. mars ár hvert vegna endurgreiðsluhæfs kostnaðar sem féll til á næstliðnu ári.

Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna frumvarpsins verði allt að 400 millj. kr. frá og með 1. janúar 2020. Lagt er til að lögin verði endurskoðuð fyrir 31. desember 2024 enda er hér um ríkisaðstoð að ræða sem þarf að meta reglulega. Það þarf einnig að meta hvort markmið laganna hafi náðst og því er gert ráð fyrir að úttekt á áhrifum og árangri stuðnings við einkarekna fjölmiðla samkvæmt frumvarpinu verði gerð fyrir lok árs 2023.

Líkar þetta

Fleiri fréttir