Vinnufélagarnir og vinkonurnar Erla Ágústsdóttir, Klara Ósk Kristinsdóttir, Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir og Inga Rósa Jónsdóttir starfa hjá Sigur-görðum sf. á Laufskálum í Borgarfirði. Þær voru í sumar að vinna við hellulagningu gangbrautar á móts við Menntaskólann í Borgarnesi. Þessar öflugu stúlkur segja að verkefni þeirra fái mikla athygli, ekki síst útlendinga sem aldrei segjast hafa séð stúlkur vinna slík verk. Ljósm. Gunnhildur Lind.

Ítarlegur fréttaannáll ársins í máli og myndum

Árið 2019 var síst eftirbátur annarra ára þegar kemur að fréttum af Vesturlandi, nema síður væri. Í spegli tímans hefur hvert ár sín einkenni. Kannski verður ársins 2019 einkum minnst fyrir að vera sólríkt á Vesturlandi. Flestir glöddust yfir því en áhrif þurrka voru allavegana. Meðal annars viðbúnaðarástand vegna hættu á gróðureldum, vatnsból þornuðu upp, laxar gengu ekki í árnar og dró úr sprettu. Það var því mikið af sólríkum myndum sem blaðamenn og fréttaritarar Skessuhorns tóku í sumar. Í það minnsta hefur okkur blaðamönnum á Skessuhorni sjaldan fallið verk úr hendi. Allir höfðu nóg að gera og sjaldnast reyndar sem verkefnalistinn var tæmdur þegar vikan var gerð upp. Meðal þess sem stendur upp úr má nefna að hátæknifiskvinnsluhús var opnað í Grundarfirði, drög voru lögð að kanadískri þangvinnslu í Stykkishólmi, jarðböð voru opnuð í gili í Húsafelli, laugin Guðlaug í flæðarmálinu á Langasandi sló í gegn og kom þannig Akranesi á kortið þegar ferðmennska er annars vegar. Sólríkt sumar hafði gríðarleg áhrif á fjölda ferðamanna í landshlutanum. En við upplifðum einnig bakslög í atvinnugreinum, sigra og ósigra. Atvinnugreinar fara og koma. Erfiðleikar hafa verið í fiskvinnslu á Akranesi þar sem útgerð er nánast lögst af. Sauðfjárbændur þurfa enn að sýna útsjónarsemi til að láta enda ná saman og þá stendur til að loka upplýsingamiðstöð ferðamanna í Borgarnesi. Hjá Skagamönnum stóð upp úr mikil bygging íbúðarhúsnæðis og þá var Sementsstrompurinn felldur í vor.

Í Skessuhorni reyndum við af mætti að segja frá fólkinu sem byggir Vesturland, þessum harða kjarna sem kýs að lifa hér og starfa og halda merkjum landshlutans á lofti. Margt tókst okkur blaðamönnum á Skessuhorni að þefa uppi á árinu. Gleðifréttir og gagnrýnar, léttar fréttir sem þyngri. Við erum fjölmiðill sem hefur þá stefnu að gefa sem raunsannasta mynd af mannlífinu hverju sinni. Þá, eins og gefur að skilja, þarf stundum að fjalla um það sem betur mætti fara, skapa umræðu, leita lausna, ekki síður en varpa fram því jákvæða og gleðilega sem sannarlega er oftar. Það sem gefur lífinu gildi.

Í Jólablaði Skessuhorns, sem kom út í dag, er stiklað á stóru í atburðum ársins 2019 í átta síðna annál. 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir