Fulltrúar Akraneskaupstaðar ásamt fulltrúum Ferðamálastofu og öðrum gestum að athöfn lokinni.

Guðlaug sæmd Umhverfisverðlaunum Ferðamálastofu

Guðlaug við Langasand á Akranesi er handhafi Umhverfisverðlauna Ferðamálastofu 2019. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn við Guðlaugu nú síðdegis í dag. Það var Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri sem afhenti verðlaunin og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri veitti þeim viðtöku fyrir hönd Akraneskaupstaðar.

Er þetta í 25. skipti sem Ferðamálastofa stendur að útnefningu umhverfisverðlaunanna, en þau hafa verið veitt óslitið frá árinu 1995. Tilgangur verðlaunanna er að beina athygli að þeim ferðamannastöðum eða ferðaþjónustufyrirtækjum sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Verðlaunin eru nú veitt í fjórða sinn verkefni sem hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Guðlaug við Langasand var formlega tekin í notkun fyrir rétt rúmu ári síðan, í byrjun desember 2018. Guðlaug er steinsteypt laug á þremur hæðum, alls sex metra hátt mannvirki staðsett á Langasandi fyrir aftan áhorfendastúku Akranesvallar og Aggapall. Efst er útsýnispallur sem gengið er út á af göngustígnum meðfram Langasandi. Undir pallinum er stjórnherbergi og samsíða honum heit laug sem vísar á móti sjónum með útsýni út á hafið. Önnur grynnri laug er á neðstu hæðinni sem nýtir yfirfallið úr pottinum fyrir ofan. Á því rétt rúma ári sem liðið er frá opnun Guðlaugar hafa ríflega 30 þúsund gestir baðað sig í lauginni, að því er fram kom í máli Sævars Freys við afhendingu verðlaunanna.

Upphafið að byggingu Guðlaugar má rekja til þess þegar minningarsjóði í nafni Jóns Gunnlaugssonar útvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur, húsmóður í Bræðraparti á Akranesi, var slitið árið 2014. Ákvað stjórn sjóðsins að ráðstafa 14 milljónum til uppbyggingar á heitri laug á Akranesi, auk þess að veita aðra styrki. Upp frá því hófst undirbúningur að verkefninu. Guðlaug naut einni styrks úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem fyrr segir, upp á tæpar 30 milljónir króna.

Laugin var hönnuð af Basalti arkitektum og Mannviti verkfræðistofu fyrir Akraneskaupstað. Yfirverktaki var Ístak ehf. og Vélaleiga Halldórs Sigurðssonar undirverktaki. Rafþjónusta Sigurdórs og Pípulagningaþjónustan önnuðust rafmagns- og vatnslagnir og Trémsiðjan Akur smíðaði búningsherbergin undir stúku Akranesvallar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir