Orri Jónsson verkfræðingur fyrir utan skrifstofu EFLU á Hvanneyri. Ljósm. aðsend.

EFLA hefur opnað skrifstofu á Hvanneyri

Verkfræðistofan EFLA hefur opnað skrifstofu á Vesturlandi, nánar til tekið í Hvannahúsinu svokallaða við Hvanneyrargötu 3 á Hvanneyri. Skrifstofan á Hvanneyri var opnuð 1. nóvember síðastliðinn og þar mun Orri Jónsson, verkfræðingur frá Lundi, hafa aðsetur. „Hugmyndin að því að opna starfsstöð í Borgarfirðinum hefur verið að þróast um nokkurt skeið, en Efla hefur ávallt lagt mikla áherslu á þjónustu í heimabyggð. Það var metið svo að þarna væri sóknarfæri fyrir EFLU,“ segir Orri í samtali við Skessuhorn. „Hingað til höfum við ekki verið með starfsstöð á Vesturlandi en sáum tækifæri til að auka þjónustu við núverandi viðskiptavini á svæðinu og vinna að nýjum tækifærum. Þau eru mörg á Vesturlandi, bæði þegar litið er til Borgarbyggðar sem og nærliggjandi sveitarfélaga,“ bætir hann við.

Starfsstöðvar EFLU eru orðnar ellefu talsins um land allt; í Reykjavík, Reykjanesbæ, Selfossi, Hellu, Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Seyðisfirði og nú hefur starfsstöðin á Hvanneyri bæst í hópinn. „Á Hvanneyri munum við sinna allri almennri verkfræði- og ráðgjafaþjónustu en einnig verkefnum sem snúa að skipulagsmálum, auk landmælinga og kortagerðar. Tengsl milli starfsstöðva EFLU eru afar sterk og hefur skrifstofan á Hvanneyri fjölbreytt bakland hvað varðar þekkingu og þjónustu hjá öðrum starfsstöðvum,“ segir Orri.

Fyrst um sinn verður hann eini starfsmaður EFLU á skrifstofunni á Hvanneyri, en hann segir markmiðið að þeim fjölgi, ef vel gengur. „Nýja skrifstofan veitir starfsfólki EFLU tækifæri til að nýta aðstöðuna ef þeir eru að sinna verkefnum á svæðinu. Með þeim tölvu- og fjarfundabúnaði sem býðst í dag gefst færi á því að vinna svo til öll verkefni hvaðan sem er af landinu og opnar á tækifæri til samvinnu milli landshluta, óháð staðsetningu. Hjá EFLU starfa um 20% starfsmanna á landsbyggðinni og fyrirtækið leggur áherslu á að styrkja starfsemina innanlands og efla þjónustu í heimabyggð,“ segir Orri Jónsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir