Útskriftarnemendur sem mættir voru ásamt skólameistara og aðstoðarskólameistara. Ljósm. tfk.

Brautskráð frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Síðdegis í gær, þriðjudaginn 17. desember, brautskráðust við hátíðlega athöfn átta nemendur frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Af félags- og hugvísindabraut brautskráðust Aleksandra Wasiewicz, Alma Jenný Arnarsdóttir og Dawid Einar Karlsson. Af náttúru- og raunvísindabraut brautskráðist Finnbogi Steinarsson. Af opinni braut til stúdentsbrautar brautskráðust Eva María Sævarsdóttir, Ísak Þórir Ísólfsson Líndal og Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir. Með viðbótarnám til stúdentsprófs brautskrifast Björn Viðar Jóhannsson og af framhaldsskólabraut 1 brautskráðist Patryk Kuczynski.  Þess má geta að síðastliðinn júlímánuð útskrifaði skólameistari Hraundísi Pálsdóttur af félags- og hugvísindabraut.

Athöfnin hófst á því að Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari brautskráði nemendur í 29. sinn í sögu skólans og flutti ávarp. Sólrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari afhenti síðan nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Sveitarfélögin sem standa að skólanum gáfu viðurkenningar í formi bókagjafa, en auk þess gaf Landsbankinn peningagjöf. Elva Björk Jónsdóttir nemandi flutti lögin Ef ég nenni og Óskalistinn minn. Sólveig Guðmundsdóttir flutti kveðjuræðu kennara og starfsfólks, Gunnhildur Gunnarsdóttir flutti ræðu fyrir hönd tíu ára stúdenta og Alma Jenný Arnarsdóttir hélt kveðjuræðu nýstúdenta. Að athöf lokinni bauð skólameistari nemendum og gestum að þiggja veitingar.

„Það er gaman að segja frá því að þeir útskriftarnemendur sem ekki sáu sér fært um að vera með okkur mættu þó í „fjærveru“ okkar sem mikið hefur verið notuð síðastliðið ár. Í fyrsta sinn var athöfninni einnig streymt beint af fésbókarsíðu skólans,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir