Særún strandaði á skeri í apríl síðastliðnum. Ljósm. úr safni/ LHG.

Aðgæsluleysi þegar Særún strandaði

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að aðgæsluleysi við stjórnun farþegabátsins Særúnar hafi orðið þess valdandi að báturinn strandaði á skeri í apríl síðastliðnum. RÚV greinir frá. Mikill viðbúnaður var vegna strandsins í vor, þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og björgunarsveitir frá Stykkishólmi og Rifi héldu á vettvang.

Þrír farþegar voru um borð í skipinu þegar það strandaði. Þeir voru fluttir yfir í línubát sem færði þá til hafnar í Stykkishólmi. Áhöfn Særúnar varð hins vegar eftir um borð. Skipið losnaði af strandsstað fjórum klukkustundum síðar og var siglt undir eigin vélarafli til hafnar í Hólminum, þar sem það var tekið í slipp. Þá kom í ljós tveggja metra rifa sem myndast hafði í þurrrými stjórnborðsmegin.

Við rannsókn nefndarinnar kom fram að skipstjórinn, sem var einn í brúnni þegar skipið strandaði, taldi sig þekkja svæðið mjög vel. Hann vissi af því grunni sem skipið strandaði á, en það kemur ekki upp á stórstraumsfjöru. Taldi hann ástæður strandsins vera mannleg mistök. Kvaðst hann enn fremur hafa haft sólina í augun, sem hafi blindað hann auk þess sem hann taldi sig hafa kveikt á sjálfstýringu skipsins. Hann hefði talið að hann væri að beygja á bakborð en þess í stað hafi skipið siglt beint af augum.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að aðstæður hafi verið góðar þegar strandið varð, logn og sléttur sjór. Skipstjórinn hafi því ekki talið neina hættu á ferðum og ákvað að bíða eftir flóði í stað þess að reyna að losa skipið. Umhverfisstofnun telur að ekki hafi orðið teljandi mengun af strandinu þó olía hefði lekið úr skipinu eftir að það losnaði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira