Til eru myndir af fjórum háhyrningum sem sést hafa á Breiðafirði og nú við Genóa á Ítalíu. Ljósm. rannsakendur.

Víðförulustu háhyrningar sem sögur fara af

Háhyrningar sem sést hafa reglulega í Breiðafirði frá árinu 2014 eru sömu dýrin og að undanförnu hafa haldið sig við höfnina í Genóa á Ítalíu. Það er jafnframt ein lengsta leið háhyrninga sem vitað er til að nokkru sinni hafi verið skráð. „Háhyrningarnir sem um ræðir og sem hafa verið myndaðir við höfnina í Genóa bera einkennisnöfnin SN113, SN114 og SN116. Líklegt er að sá fjórði, Dropi eða SN115, sé líka hluti af þeim hópi sem hefur sést og myndaður við norðanvert Snæfellsnes en beðið er staðfestingar á auðkenni á vinstri hlið þess dýrs,“ segir í tilkynningu frá Orca Guardians á Snæfellsnesi sem rannsakað hefur hvalina.

Samanburðarmyndir gera það mögulegt að hægt er að bera kennsl á dýrin og finna samsvörun með áreiðanlegum hætti. „Við gátum greint samsvarandi mynstur og einkenni á uggum og í kringum augu. Þessir einstaklingar háhyrninga sáust fyrst við Ísland 2. júní 2014 en Orca Guardians Iceland samtökin hófu að safna saman og skrá upplýsingar um háhyrninga við Ísland í janúar það ár. Árið eftir sáust þessir sömu háhyrningar allavega sex sinnum og einnig á árinu 2016. Árið 2017 komu allir fjórir að nýju og þá með nýfæddan kálf sem fylgdi sérstaklega móður sinni SN114,“ segir í tilkynningu Orca Guardians.

Algengt er að sömu hópar háhyrninga komi ár eftir ár að vesturströnd Íslands og oft koma hóparnir á sama tíma ársins. „Þeir háhyrningar sem sjást reglulega við Snæfellsnes eru gjarnan óþekktir annars staðar við strendur Íslands og mögulegt að þeir haldi sig fjarri landinu yfir vetrartímann. SN113 og félagi hans, sem nú hafa komið í ljós við Genóa á Ítalíu, hafa ekki sést við Ísland síðan árið 2017. Þökk sé hvalaskoðuninni á Snæfellsnesi og í Genóa, Orca Guardians rannsakendum (Marie Mrusczok) og almenningi, þá hefur nú tekist að einstaklingsgreina dýrin sem þau sömu og við höfum notið þess að fylgjast með um árabil við vesturströnd Íslands,“ segir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir