Séð yfir þetta litla skautasvell við Paimpol garðinn í Grundarfirði. Ljósm. tfk.

Grundarfjarðarbær lét útbúa skautasvell

Sú hugmynd kviknaði hjá fulltrúum í íþrótta- og æskulýðsnefnd Grundarfjarðarbæjar í haust, að komið yrði upp skautasvelli innanbæjar í vetur. Hugmyndinni var mjög vel tekið af bæjarstjórn og staðsetning rædd á bæjarstjórnarfundi og í framhaldi af bæjarverkstjóra og bæjarstjóra. Að kvöldi fimmtudagsins síðasta leit út fyrir að veðurspáin væri ansi hentug fyrir slíka aðgerð og því ekki eftir neinu að bíða. Starfsmenn áhaldahúss og slökkviliðsins fóru á föstudaginn 13. desember, ruddu nálægt bílastæði og sprautuðu svo vel af vatni á planið með dælubíl slökkviliðsins.

Morguninn eftir var svo þetta litla skautasvell opnað og komu ungir sem aldnir til að renna sér á skautum aftur á þessum slóðum en fyrir fjölmörgum árum, á síðustu öld, var tjörn þarna rétt hjá þar sem Grundirðingar gátu skautað. Fólk kom nú með skauta úr geymslunni hjá sér og lánaði þeim sem vildu prófa. Þetta frábæra framtak heppnaðist mjög vel og vonandi verður áframhald á kalda blíðviðrinu sem var þennan skemmtilega laugardag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir