Frá vettvangi leitar við Núpá í gær. Leit þar verður fram haldið í dag. Ljósm. Björgunarfélag Akraness.

Vestlenskt björgunarsveitarfólk til aðstoðar á Norðurlandi

Afar erfitt ástand er víða um norðanvert landið í kjölfar óveðursins fyrr í vikunni. Áhrif þess eru meðal annars rafmagnsleysi, köld hús, skortur á vistum, fjarskiptaleysi, ekki er hægt að mjólka kýr í tæknivæddum fjósum, hross hafa grafist í fönn og áfram mætti lengi telja. Orðið hamfaraástand á við, enda sá ríkisstjórnin ástæðu til að kalla þjóðaröryggisráð saman til fundar í gær og fara yfir stöðuna. Flóknasta verkefnið og jafnframt það sem reynir mest á mannskap er leit að ungum manni sem saknað er í Eyjafirði eftir að krapaflóð hreif hann með sér við Núpá í Sölvadal. Hafa hundruðir björgunarsveitarfólks og annarra komið að leit við erfiðar aðstæður.

Búið er að senda búnað og mannskap norður fyrir heiðar til leitar og björgunarstarfa. Herkúles birgðaflutningavél danska hersins var flogið norður í gær með mannskap og búnað. Þá hafa björgunarsveitir af Vesturlandi sent bæði búnað og mannskap, en okkar landshluti fór hvað best út úr þessu hamfaraveðri sem geisaði á landinu fyrr í vikunni og vildu sveitirnar leggja lið þar sem neyðin er stærst.

Björgunarfélag Akraness sendi tvo björgunarsveitarmenn og snjóbíl til Hólmavíkur til aðstoðar við ýmis verkefni um miðja vikuna. Aðfararnótt fimmtudags fór svo sjö manna hópur með fimm vélsleða og tvo jeppa í Eyjafjörð til að aðstoða við leit að piltinum sem saknað er við Núpá.

Þrír félagar úr Björgunarsveitinni Brák í Borgarnesi fóru norður í Húnavatnssýslu og veittu félögum sínum þar liðsinni við að leysa úr fjölda verkefna sem þar biðu. Unnu þeir meðal annars að því að berja ísingu af háspennulínum til að koma rafmagni á bæi að nýju. Björguðu þeir auk þess ellefu hrossum sem grafist höfðu í fönn. „Allir vinna saman og margar samhentar hendur ná að saxa á verkefnalistann,“ segir í færslu björgunarsveitarfólks í Brák á Facebook síðu sinni.

Þrír félagar í Björgunarsveitinni Ok aðstoðuðu meðal annars við leit við Núpsá í Sölvadal. Til að komast norður var ekið á Hvammstanga um Heydal og Laxárdalsheiði, en mannskapurinn þurfti að bíða meðan raflína var klippt í sundur því hún hékk yfir veginn. Komust þó á leiðarenda í vondu skyggni og tókust á við verkefni sem biðu. Vitjuðu meðal annars bænda sem höfðu verið án rafmagns í langan tíma. Af einum bænum var einstaklingur ferjaður yfir á annan bæ þar sem var rafmagn og hiti var á húsum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira