Þjóðaröryggisráð í fyrsta skipti kallað saman

Í gær var haldinn sérstakur fundur þjóðaröryggisráðs vegna hinna fordæmalausu aðstæðna sem upp hafa komið í framhaldi af ofsaveðri undanfarna daga. Á fundinum var farið yfir afleiðingar veðursins, stöðu mála og næstu skref. Ljóst er að miklar truflanir og bilanir hafa valdið rafmagnsleysi víða á Norðurlandi. Fjarskipti liggja niðri víða á sama svæði. „Um fordæmalaust ástand er að ræða að þessu leyti og því þótti ráðlegt að boða þjóðaröryggisráð saman og fara yfir stöðuna sbr. 2. mgr. 6.gr. laga um þjóðaröryggisráð. Þess er vænst að viðgerðir á flutningskerfi muni taka nokkra daga,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Staða mála verður rædd enn frekar á vettvangi ríkisstjórnarinnar í dag, þar sem fjallað verður um nauðsynlegar aðgerðir til skemmri og lengri tíma litið.

Á fundi þjóðaröryggisráðs í gær voru, auk fastafulltrúa þar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðmála, -iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ásamt ráðuneytisstjórum. Þá var fulltrúum almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra boðið til fundarins ásamt fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða kross Íslands og gerðu þeir grein fyrir stöðu mála, hver á sínu sviði, og samvinnu fjölmargra aðila um land allt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira