Spá afgangi frá rekstri Borgarbyggðar

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar var samþykkt með fimm atkvæðum eftir seinni umræðu í sveitarstjórn í gær, sem og þriggja ára áætlun. Fulltrúar Framsóknarflokks sátu hjá þegar greidd voru atkvæði um áætlunina í heild sinni. Tekjur A og B hluta eru áætlaðar 4.591 milljónir á næsta ári en rekstrargjöld A og B hluta, án fjármagnsliða, 4.293 milljónir er að fjármagnsliðir verði 114 milljónir og rekstrarniðurstaða samstæðunnar því jákvæð um 183 milljónir króna á næsta ári. Áætlað er að fjárfestingar og framkvæmdir A og B hluta sveitarsjóðs á næsta ári nemi 654 milljónum króna.

Álagninig fasteignaskatts í A flokki verður 0,36% og lækkar úr 0,4%. Í B flokki verður hún 1,32% og 1,39% í C flokki. Lóðaleiga verður 1,5% af fasteignamati íbúðarhúsalóða og 2,0% af mati annarra lóða. Áfram verður 50% afsláttur af gatnagerðargjöldum og 100% afsláttur af lóðagjöldum árið 2020. Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun hafði verið samþykkt að álagningarhlutfall útsvars í Borgarbyggð yrði 14,52% af tekjum, sem er hámarksútsvar og gjaldskrár verða ekki hækkaðar umfram 2,5% eins og lagt var til í lífskjarasamningunum svokölluðu. Dvalargjöld hækka ekki í gjaldskrám leikskólanna.

„Engin framtíðarsýn“

Fulltrúar Framsóknar lögðu fram bókun þar sem þeir sögðu meirihlutann á yfirstandandi kjörtímabili ekki hafa neina framtíðarsýn og sóa tekjum sveitarfélagsins. Fyrirtækjum hefði ekki fjölgað í sveitarfélaginu og lítið eða ekkert af íbúðum og húsnæði væri í byggingu. „Á meðan engin sýn er til staðar og engin geta til þess að leiða verkefni áfram og klára dæmið munum við fylgjast með tekjum sveitarfélagsins ausið stefnulaust,“ segir í bókuninni. „Það er lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Meirihlutinn getur ekki lengur komist hjá því að upplýsa íbúa um sameiginlega sýn sína á fjölmörg ókláruð mál. Raunverulegur fjárhagslegur og samfélagslegur ávinningur fyrir íbúa helgast af því að sveitarstjórn geti lagt fram framsækna framtíðarsýn,“ segir í bókun Framsóknarmanna sem kölluðu eftir því að slík sýn yrði lögð fram eigi síðar en 1. mars á næsta ári.

„Skýr stefna“

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram bókun þar sem þeir sögðu ánægjulegt að starfa í þágu sveitarfélags þegar fjárhagurinn væri sterkur og vel gengi. Engu að síður væri mikilvægt að gæta vel að jafnvægi milli framkvæmda, þjónustu og fjármuna. „Það má ekki safnast upp mikil framkvæmdaþörf eða ganga of nærri skerðingu þjónustu við íbúa en heldur ekki ganga of nærri fjárhag sveitarfélagsins við framkvæmdir. Það þarf að finna eðlilegt jafnvægi milli þessara þátta. Ljóst er að mikil framkvæmdaþörf var komin víðs vegar í sveitarfélaginu og því þurfti að láta hendur standa fram úr ermum en bæði sú fjárhagsáætlun sem lögð var fram árið 2019 og sú sem lögð er fram hér í dag bera þess merki. Samhliða þessu var þó gætt að aðhaldi í rekstri og leitast við að bæta þjónustu við íbúa,“ segir í bókun meirihlutans, sem þvertók fyrir að ekki hefði verið lögð fram nein framtíðarsýn. „Sú fjárhagsáætlun sem lögð er fram hér í dag varpar með skýrum hætti ljósi á þá stefnu sem meirihlutinn hefur markað í samstarfi við starfsmenn sveitarfélagsins. Styður hún þá sýn að hér verði öflugt, fjölskylduvænt samfélag sem hugar vel að öllum aldurshópum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira