Haraldur þekkir hvaða tjón margir kollegar hans í stétt kúabænda standa frammi fyrir. „Afurðatap kúa sem ekki var hægt að mjólka í marga daga – glötuð framleiðsla sem hellt var í svelginn. Skemmdar girðingar, tjón á húsum. Þeir fjármunir verða ekki sóttir í afurðaverð til bænda. Það er enn önnur saga.“ Ljósm. úr safni/mm.

Haraldur vill setja fólk í fyrsta sæti en ekki pólitíska tækifærismennsku

Haraldur Benediktsson fyrsti þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra skrifar opinskáa grein á Facebook síðu sína undir fyrirsögninni „Ég er miður mín.“ Hann tekur fram að slíka fyrirsögn sé ekki pólitískt skynsamlegt að setja fram, en gerir það engu að síður. Fjallar hann um það varnarleysi sem landsbyggðarfólk stendur frammi fyrir þegar náttúruöflin taka yfirhöndina. Tæknin svíkur og aðstæður fólks verða erfiðar. Hann varar við pólitískri tækifærismennsku. Hér verður gripið niður í færslu Haraldar:

„Þessa fyrirsögn nota ég vegna þess að ég finn til ábyrgðar. Í 15 ár hef ég verið að láta mig varða hagsmuni fólks. Hagsmuni allra landsmanna – reynt að tala fyrir hagsmunum fólks sem býr á landsbyggðinni. Allan tímann hef ég skynjað stuðning, skilning þeirra sem búa á svonefndu höfuðborgarsvæði. Við erum ein þjóð. Samt er það þannig að íbúar landsbyggðar, sveitanna, horfa framá allt aðrar aðstæður en meginþorri landsmanna. Við þolum hærra kostnað við flutning á rafmagni, verri tengingar og minni gæða þeirra tenginga. Við örfáir íbúar sveitanna þurfum að byggja upp og viðhalda ógnarstóru dreifikerfi – eftir að hafa á árum áður tekið þátt í að byggja upp með gjöldum okkar fyrir uppbyggingu á svonefndum þéttbýlissvæðum. Það berum við nú ein. En það er samt kerfið sem á að vera grunnur að því allir geti notið þess að skipta um orkugjafa fyrir bíla – svo eitthvað sé nefnt. Samt er mestallt rafmagn framleitt í virkjunum sem standa í sveitum – flutt með kerfum sem liggja um lönd bænda.“

Haraldur segir að sem betur fer hafi verið gert stórátak í lagningu jarðstrengja fyrir dreifiveitur. „Ástandið væri hrikalegt núna – ef svo væri ekki. Gleymum því ekki. En engin kerfi og engin mannvirki geta heldur verið þannig að þau þoli hvað sem er.“ Haraldur þekkir hvaða tjón margir kollegar hans í stétt kúabænda standa frammi fyrir. „Afurðatap kúa sem ekki var hægt að mjólka í marga daga – glötuð framleiðsla sem hellt var í svelginn. Skemmdar girðingar, tjón á húsum. Þeir fjármunir verða ekki sóttir í afurðaverð til bænda. Það er enn önnur saga.“

Undir lok langrar færslu sinnar skrifar Haraldur: „Ég veit um skammtímahugsun sem liggur að baki því að rækta ekki, að styrkja ekki grundvöll að atvinnugreina þeirra sem á landsbyggðinni lifa. Skammsýnin sem hefur veikt t.d. matvælaframleiðslu sveitanna. Ég hef hlustað óteljandi sinnum á hvernig má búa til óendanlegar tekjur fyrir ríkið að setja aflaheimildir á uppboð. Hvernig við getum skapað gríðarlegan arð af því að hækka rafmagn til iðnaðar.

Ég er miður mín vegna þess að mér finnst hafa afhjúpast hve mikill munur er á aðstöðu fólks og mér hefur ekki tekist betur til að tala máli þeirra. Ég hef ekki sett vegtyllur fyrir mig í efsta sæti – það gera fæstir. Ég er ekki að ásaka neinn um gera það – en vil að sé hlustað á hvað ég segi. Að það verði breytingar – raunverulegar breytingar. Fánýti karps pólitíkur um mörg málin – eins og um eitthvað ímyndað meira frelsi ef bara megi flytja meira og meira inn. Um hvort samningur við þjóðkirkjuna sé eðlilegur – eða hvort einstaka fjárveiting standist nákvæmar um óvænt og ófyrirséð i fjáraukalögum – verða hjóm þegar hugsað er um fólk sem situr sambandslaust í köldum húsum – rafmagnlausum sjúkrahúsum. Ég ber mína ábyrgð. Við búum við óblítt veðurfar – það verða áföll,“ segir Haraldur; „Setjum fólkið í fyrsta sæti en ekki pólitíka tækisfærismennsku.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir