Björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar voru í viðbragðsstöðu. Ljósm. Björgunarsveitin Brák.

Vesturland slapp vel frá veðrinu

Aftakaveður gekk yfir landið í gær og gengur enn yfir landið í dag, en spáð hafði verið mesta óveðri síðustu ára. Víða um land varð mikið eignatjón og björgunarsveitir sinntu meira en sex hundruð útköllum í gær og í nótt. Versta veðrið er nú gengið niður hér um vestanvert landið en slæmt veður er fyrir austan.

Veðrið byrjaði að versna vestanlands síðdegis í gær og fór versnandi með kvöldinu. Skólahald raskaðist víða vegna veðurs, verslunum var lokað fyrr sem og allmörgum vinnustöðum. Voru viðbragðsaðilar í startholunum áður en veðrið skall á.

Færð spilltist mjög víða. Lokað var um Kjalarnes, Hafnarfjall, Bröttubrekku, Fróðárheiði og Holtavörðuheiði og ófært var frá Borgarnesi í Norðurárdal og á sunnanverðu Snæfellsnesi, svo fáein dæmi séu nefnd.

Veðrið tók síðan að ganga niður í nótt og undir morgun. Leiðirnar um Kjalarnes og Hafnarfjall hafa verið opnaðar að nýju og ekki er lengur ófært í Borgarfirði og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Brattabrekka og Holtavörðuheiði eru þó enn lokaðar og Fróðárheiði er ófær.

Að sögn Ásmundar Kr. Ásmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vesturlandi, virðist óveðrið ekki hafa haft mikil áhrif í landshltuanum. „Við virðumst hafa sloppið einna best hér í þessum landshluta,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Skessuhorn. „Merkilegast fannst mér eftir nóttina að einhver náði að keyra of hratt og láta hraðamyndavél á þjóðveginum taka af sér mynd, í vitlausu veðri,“ segir hann.

Ásmundur segir lögreglu hafa fengið tilkynningu um lausar þakplötur og flasningar á húsi á Akranesi í morgun. Þá hafi fokið upp hurð í húsnæði Öldunnar og Rafta í Borgarnesi. Fyrst var talið að um innbrot væri að ræða, en þegar lögregla athugaði málið kom í ljós að hurðin hafði fokið upp. Þakplötur tóku að fjúka á húsi við Hafnarbraut á Akranesi í gær. Haft var samband við björgunarsveit sem kom og negldi plöturnar niður. Þá var tilkynnt um stórar lausar þakplötur í Álfalundi á Akranesi sem fólk hafði áhyggjur af að fykju á næstu hús. Verktaki kom á staðinn og fergdi plöturnar. Einnig barst lögreglu tilkynning um að slárnar sem notaðar eru til að loka Bröttubrekku væru farnar af veginum. Ekki er vitað hvers vegna, en líklegast er talið að þær hafi einfaldlega fokið, að sögn lögreglu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir