Fjárhagsáætlun samþykkt í Snæfellsbæ

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2020 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 5. desember. Þar kemur fram að útsvarsprósenta í Snæfellsbæ haldist óbreytt en breytingar vorur gerðar á álagningarprósentu fasteignagjalda. „Álagningarprósenta vatnsgjalds húseigna í A-flokki lækkar um 9% og álagningarprósenta fráveitugjalds húseigna í A-flokki lækkar um 6,25%. Þetta er gert til að koma til móts við íbúa Snæfellsbæjar þannig að heildarfasteignagjöld hækki ekki á milli ára þrátt fyrir hækkun á fasteignamati,“ segir í frétt á vef Snæfellsbæjar. Smávægileg hækkun varð á gjaldskrám í bæjarfélaginu. Fram kemur að bæjarstjórn ætli að halda áfram að veita góða þjónustu í sveitarfélaginu. „Styrkir til félagasamtaka hækka á árinu 2020 og verða 64.515.000,“ segir í fréttinni, en hæstu styrkirnir fara til íþrótta- og ungmennastarfs og mun Snæfellsbær áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna.

Fram kemur að um 18 milljónum verði varið í verkefnið Betri Snæfellsbær á árinu 2020. Það verkefni hófst á haustmánuðum 2019 þar sem íbúar komu með margar góðar tillögur að því sem mætti gera til að gera Snæfellsbæ enn betri og fer peningurinn í að koma hluta af þeim tillögum í framkvæmd. Á árinu 2020 er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum í Snæfellsbæ og er gert ráð fyrir að fjárfestingar verði um 423 milljónir króna og þar af 195 milljónir hjá bæjarstjóði Snæfellsbæjar og 228 milljónir hjá hafnarsjóði. Stærsta framkvæmdin verður lengin Norðurgarðs í Ólafsvík.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð og árið 2019 tókst að greiða upp lán og engin ný lán tekin á árinu, þrátt fyrir miklar framkvæmdir. „Ekki er gert ráð fyrir hækkun skulda á árinu 2020, sem er gott. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 65% í A-hluta, en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% og þá er Snæfellsbær vel innan marka,“ segir í fréttinni. Einnig kemur fram að Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn. Miklar framkvæmdir á hans vegum eru framundan árið 2020, eins og áður hefur komið fram. „Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir