Ekki var það Stekkjastaur

Lögreglunni á Vesturlandi barst tilkynning frá ökumanni rétt fyrir kl. 3:00 aðfaranótt þriðjudags. Kvaðst hann vera hræddur við að mæta ökumanni sem kom á móti honum á vespu við hringtorgið inn á Akranes. Aðilinn á vespunni stöðvaði nokkuð fjarri ökumanninum sem hringdi inn tilkynninguna og var þar með ruslapoka fullan af alls kyns jólaskrauti.

Ekki var þetta þó Stekkjastaur að koma fyrr til byggða heldur reyndist þetta vera maður sem var að sækja ruslapoka sem hann hafði einhverra hluta vegna skilið eftir þarna í vegkantinum. Eitthvað þótti ökumanni bílsins þetta undarlegt og sá ástæðu til að hafa samband við lögreglu.

Lögreglumenn á Akranesi fóru á vettvang og hittu manninn á vespunni. Kom á daginn að reyndist alveg ástæðulaust að óttast hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir