Óvissustig vegna aftakaveðurs

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi í landinu vegna þess aftakaveðurs sem spáð er að gangi yfir landið í dag og þangað til í fyrramálið. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra í landinu og í samræmi við veðurspá Veðurstofu. „Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið,“ segir í tilkynningu á vef Almannavarna.

Þá hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi. Búist er við því að snjóflóðahætta geti skapast í fjalllendi í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Landsmönnum er bent á að fylgjast með frekari upplýsingum á Facebook-síðu almannavarna, veðurspá www.vedur.is, færð á vef Vegagerðarinnar og upplýsingum á textavarpinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir