Svipmynd af umfangsmiklum fornleifarannsóknum í Reykholti. Myndin er frá 2002. Ljósm. Björn Húnbogi Sveinsson.

Dagskrá þar sem Reykholtsverkefnið var kvatt

Þriðjudaginn 26. nóvember síðastliðinn bauð Snorrastofa í Reykholti upp á dagskrá, sem markaði lok hins þverfaglega rannsóknarverkefnis, Reykholtsverkefnisins, sem hófst fyrir tuttugu árum síðan. Yfirskriftin var „Reykholtsverkefnið kvatt“ og hófst dagskráin með fyrirlestri Guðrúnar Sveinbjarnardóttur fornleifafræðings þar sem hún kynnti nýútkomna bók sína; Reykholt í ljósi fornleifanna. Í kjölfarið voru pallborðsumræður um árangur verkefnisins og framtíð sambærilegra verkefna. Fluttu meðlimir pallborðsins stutta fyrirlestra og stjórnaði síðan Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri umræðum. Þeir sem sátu í pallborði auk Guðrúnar voru sagnfræðingarnir Helgi Þorláksson og Benedikt Eyþórsson, Bergur Þorgeirsson, bókmenntafræðingur og forstöðumaður Snorrastofu, og Egill Erlendsson landfræðingur.

Fjöldi fræðimanna hefur innan ramma Reykholtsverkefnins fjallað um þróun Reykholts í Borgarfirði og hafa nokkrir þeirra dregið fram hlutverk staðarins í sókn Snorra Sturlusonar eftir völdum og veraldlegum auði; að uppbygging svokallaðs menningarlegs auðmagns hafi í raun verið einn lykillinn að veraldlegum ávinningum Snorra. Og þetta snýst ekki einvörðungu um elfingu valds hér innanlands, heldur einnig í alþjóðlegu samhengi, samanber tengsl Snorra við norsku hirðina.

Reykholt var á miðöldum bæði kirkjumiðstöð og höfuðból ásamt því að vera miðstöð ritmenningar og lærdóms. Staðurinn var einnig heimili Snorra og að einhverju leyti dvalarstaður Sturlu Þórðarsonar, bróðursonar hans, í æsku. Með Reykholtsverkefninu var sköpuð sannfærandi mynd af starfseminni í Reykholti, og þá ekki hvað síst þeirri ritmenningu, sem gert hefur staðinn jafn frægan og raun ber vitni. Unnt var að spyrja spurninga um eðli starfsemi meintrar ritstofu með hliðsjón af húsaskipan, verklagi og vísbendingum um aðferðafræði eins og þær birtast í einstökum handritum og bókmenntaverkum og í samanburði á milli handrita og handritsgerða tiltekinna verka.

Talið er að hið sama sé hægt að gera á öðrum íslenskum ritmenningarstöðum og hefur að frumkvæði Snorrastofu tekist með stuðningi þriggja ráðuneyta að fjármagna slík verkefni með 175 millj. kr. framlagi, sem deilast munu á fimm ár. Mun Snorrastofa annast daglega umsýslu verkefnisins.

Það er mat margra, að nauðsynlegt sé að varðveita, rannsaka og miðla enn betur en gert hefur verið menningarsögu og -minjum þeirra staða og ritstofa á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Og með því að setja ritmenningu íslenskra miðalda í brennipunkt skapast nýtt sjónarhorn á fræði- og fornleifarannsóknir, sem lýtur að samanburði á niðurstöðum frá hverjum stað fyrir sig. Jörðin geymir vissulega svör við mörgum spurningum sem tengjast hverjum stað, en þess er að vænta að með samanburði á bókmennta-, menningarsögu- og fornleifarannsóknum staðanna megi fá skýrari heildarmynd af því tengslaneti og menningarlandslagi sem þróaðist á því tímabili sem ritstofurnar voru starfandi.

Fornleifarannsóknir eru góður upphafspunktur þverfaglegra rannsókna á ritmenningarstöðum. Slíkar rannsóknir voru upphafið í Reykholti og skiluðu ómetanlegum upplýsingum um byggingu staðar og kirkju og athafnasemi ábúenda, ekki síst á tímum Snorra.

– Bergur Þorgeirsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira