Búist við lokunum á þriðjudag og miðvikudag

Vegna slæms veðurs sem spáð er á þriðjudag og miðvikudag má búast við að vegir lokist eða verði ófærir, á meðan veðrið gengur yfir.

Á vef Vegagerðarinnar segir að búast megi við lokunum á Vesturlandsvegi um Kjalarnes frá 13:00 á þriðjudag til 13:00 á miðvikudag og á Vesturlandsvegi um Hafnarfjall frá 14:00 á þriðjudaginn til 13:00 á miðvikudaginn.

Búast má við lokunum á veginum um Svínadal frá kl. 8:00 á þrijðudag til 8:00 á fimmtudag, á Bröttubrekku frá 12:00 á þriðjudag til 13:00 á miðvikudag og á vegum á Snæfellsnesi frá kl. 10:00 á þriðjudag til 8:00 á miðvikudaginn.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að ef veðurspá breytist, eða aðrar aðstæður, geti lokanir tekið mið af því. Eins sé hugsanlegt að loka þurfi fleiri vegum en taldir eru upp á vef Vegagerðarinnar. Þar er jafnframt tekið fram að reynt verði eftir fremsta megni að halda aðalleiðum opnum. „Vegagerðin mun að sjálfsögðu miða aðgerðir sínar við aðstæður hverju sinni, vonandi þarf ekki að loka öllum þessum vegum – eða loka þeim svona lengi – en rétt er að vara við og vera við öllu búin,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir