Jóhanna Harðardóttir með bók sína Sólstafi, söguna af Frey og Gerði.

Sólstafir eru ástarsaga fyrir börn byggð á norrænni goðafræði

Bókaútgáfan Draumsýn hefur gefið út barnabókina Sólstafi eftir Jóhönnu Harðardóttur blaðamann í Hlésey. Bókin er ríkulega myndskreytt af Almari Steini Atlasyni, ungum hæfileikamanni sem gjarnan er kenndur við Kassann, þar sem hann dvaldi eitt sinn um vikutíma. Sólstafir byggja á fornri sögu úr Snorra-Eddu sem fjallar eins og kunnugt er um norræna goðafræði. „Mitt markmið með því að skrifa þessa bók er að sækja í norræna sagnaarfinn þjóðsögu sem ekki má undir nokkrum kringumstæðum falla í gleymsku – og koma henni á prent. Um leið reyni ég að snúa textanum yfir á mál sem börn skilja. Sólstafir er falleg saga um það þegar ljósið fæðist á sólstöðum. Við Ásatrúarfólk höldum sólstöðuhátíðir að norrænum sið, en sólstöður eru hin upprunalegu jól norrænna manna,“ segir Jóhanna í samtali við Skessuhorn.

Jóhanna segir að Sólstafir sé saga af Frey og Gerði. „Freyr er frjósemisgoðið og er í upphafi sögunnar í þunglyndi. Hann stelst upp í hásæti Óðins og sér þaðan yfir alla heima. Meðal annars sér hann til Jötunheima þar sem Gerður Gymisdóttir, tákn sólarinnar, dvelur. Hann verður hugfanginn af henni. Bókin fjallar um ævintýri þeirra og í henni kemur við sögu ást, sorg, draumar og átök. Raunar það sem einkennt gæti sögu um ungt fólk í dag. Ég gæti þess þó að allt sem þarna stendur rúmist í sögu fyrir börn.“ Jóhanna segist hafa verið heppin að fá Almar Stein til að myndskreyta bókina. „Hann er líflegur ungur maður og tókst honum vel upp í þessu verkefni. Myndir hans eru allar málaðar með olíu á striga, þær eru trúverðugar og hann sýnir þarna næmni, skynjar söguna vel og gefur henni fallegt yfirbragð.“

Jóhanna kveðst nýbúin að fá bókina úr prentun og næstu dagar og vikur fara því í upplestur og aðrar kynningar á bókinni. „Ég mun lesa fyrir börn og taka þátt í bókarkynningum í verslunum, á Þjóðminjasafninu, hjá Ásatrúarfélaginu og víðar. Það eru því líflegar vikur framundan og það er spennandi fyrir gamlan blaðamann eins og mig að eiga hlutdeild í bókaflóðinu í aðdraganda jóla og sólstöðuhátíðar,“ segir Jóhanna að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira