Heima á búinu í Austurríki.

Segja tækifæri í sauðaostagerð á Íslandi

„Við búum á bóndabæ skammt frá bökkum Dónár í Neðra-Austurríki, sem er stærsta sambandsríki Austurríkis. Þar erum við með lífrænan búskap, 131 á á húsi sem við mjólkum og framleiðum sem stendur níu mismunandi osta úr mjólkinni,“ segja þau Gerald og Katharina Schinwald í samtali við Skessuhorn. „Sem stendur framleiðum við osta úr mjólk um það bil 90 áa, en stefnum að því að mjólka í kringum 120 á næsta ári. Við hófum búskap árið 2016, reistum hús fyrir allt að 150 ær og erum að þróa búið okkar í þá átt að við getum selt alla okkar framleiðslu,“ segja þau.

„Okkur langaði alltaf að eiga dýr og jafnvel að gerast bændur. En Gerald lærði grafíska hönnun og ég lærði tískuhönnun. Við störfuðum í eitt ár í Vínarborg áður en rann upp fyrir okkur að stórborgarlífið og skrifstofuvinna væri ekki það sem okkur langaði að fást við alla ævi. Við skelltum okkur því í landbúnaðarnám, því við höfum í rauninni ekki landbúnaðarbakgrunn,“ segir Katharina. „Þú hefur hann nú reyndar, foreldrar þínir eru kjúklingabændur,“ segir Gerald og lítur á Katharinu. „Já, þeir eru það vissulega, en kjúklingabúskapur er gerólíkur því sem við erum að gera,“ segir hún og Gerald samsinnir því. Náminu luku þau ekki, því þau hófust handa við að reisa fjárhúsin á sama tíma og þau byrjuðu á meistararitgerðinni. Hún var því sett í salt. „Foreldrar mínir buðu okkur landskika og við slóum til,“ segir Katharina. „Annars hefðum við aldrei getað gert þetta, því ræktarland er svo dýrt í Austurríki,“ bætir Gerald við. „En við þurftum ekki einu sinni að ræða það hvernig búskap við vildum stunda. Það kom aldrei neitt annað til greina en að vera með kindur,“ segir Katharina.

Sjá nánar spjall við þau í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira