Reynir sendir frá sér sólóplötu

Reynir Hauksson, gítarleikari frá Hvanneyri, hefur sent frá sér sína fyrstu sólóplötu. Ber hún titilinn  El Reino de Granada, eða Konungsríkið Granada og er fyrsta íslenska flamencoplatana, svo vitað sé. „Ég fór í hljóðver hér í Granada í október og tók upp eina plötu með eigin flamenco tónsmíðum. Hljóðverið heitir FJR Estudio og er goðsagnakenndur staður hér í Granada,“ segir Reynir í samtali við Skessuhorn, en auk hans koma fram margir færir flamencolistamenn. „Þarna var ég í um tvær vikur og hljóðritaði átta lög með nokkrum góðum spilafélögum mínum. Á plötunni er mikill gítar en einnig flamencosöngur, slagverk, lófaklapp og meira að segja dans,“ segir hann.

Platan er væntanleg í verslanir á Íslandi 9. desember næstkomandi og í tilefni þess ætlar Reynir að blása til nokkurra tónleika til að kynna plötuna. „Þar leik ég lögin af plötunni ásamt því að segja sögur af upptökuferlinu. Svo verða hinir eiginlegu útgáfutónleikar haldnir á vormánuðum næsta árs með flamencohljómsveitinni minni,“ segir Reynir að endingu.

Tónleikar Reynis fara fram á fjórum stöðum; í Reykholtskirkju í kvöld, miðvikudaginn 4. desember kl. 20:30, Vatnasafninu í Stykkishólmi á morgun, fimmtudaginn 5. desember kl. 19:30, Vinaminni á Akranesi föstudaginn 6. desember kl. 20:00 og í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Reykjavík á laugardaginn 7. desember kl. 20:00. Vert er að geta þess að ókeypis aðgangur er að tónleikum Reynis í Reykholskirkju, Vatnasafninu og Vinaminni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir