Nemendur hljóðrita útvarpsþátt sem fluttur verður í FM Óðal í næstu viku. Ljósm. Grunnskólinn í Borgarnesi.

FM Óðal fer í loftið á mánudaginn

Vinna nemenda Grunnskólans í Borgarnesi við jólaútvarpið, FM Óðal 101,3, hófst um miðjan nóvember. Útvarpið er eitt stærsta verkefni nemendafélags grunnskólans og á sér nærri 30 ára sögu.

Efni nemenda yngsta stigs og miðstigs var hljóðritað í Óðali í síðustu viku en þættir unglingastigs verða hins vegar að mestu í beinni útsendingu, venju samkvæmt. Stjórn nemendafélagsins annast tæknimál, öflun auglýsinga og ýmislegt fleira sem snýr að útsendingum útvarpsins. Nemendur og bekkir semja sitt efni sjálfir og undirbúa útvarpsþættina á skólatíma undir handleiðslu kennara skólans. Leiknar auglýsingar hafa alla tíð sett svip sinn á útvarpið, en upptökur þeirra hófust eftir miðjan mánuðinn. Þeir peningar sem safnast með sölu auglýsinga renna í sjóð nemenda, sem meðal annars er nýttur til að styrkja þær ferðir sem farið er í á skólaárinu.

Útsendingar FM Óðals hefjast á mánudaginn 9. desember og standa yfir til föstudagsins 13. desember og ná að vanda hámarki með hinum vinsæla þætti Bæjarmálin í beinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir