Dópið drýgt með eldgömlu verkjalyfi og ormalyfi fyrir dýr

Lögreglan á Vesturlandi fékk nýlega niðurstöðu frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Þangað sendi lögregla sýni til rannsóknar, tæpt gramm af hvítu dufti sem var talið að væri kókaín. Efnið var gert upptækt af ökumanni sem stöðvaður var fyrr á árinu, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Sannarlega reyndist fíkniefnið vera kókaín, en það reyndist hafa verið drýgt með ýmsu öðru. Þar á meðal reyndist sýnið innihalda bæði fentasetín og tetramísól, að sögn Ásmundar Kr. Ásmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vesturlandi. „Fentasetín er hitalækkandi og verkjastillandi lyf sem er löngu hætt að nota hér á landi,“ segir Ásmundur í samtali við Skessuhorn. „Sýnið reyndist enn fremur innihalda tetramísól, sem er ormalyf fyrir dýr,“ segir hann og bætir því við að sýnið hafi einnig innihaldið laktósa.

Er þetta til marks um að þeir sem kaupa ólögleg fíkniefni geta sjaldnast vitað með vissu hvað þau nákvæmlega innihalda. „Nógu slæmt er að fólk sé að kaupa kókaín, en þarna fékk viðkomandi í leiðinni eldgamalt hitalækkandi lyf og ormalyf fyrir dýr,“ segir Ásmundur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira