Saumastofan sýnd í Logalandi í kvöld og Dalabúð annað kvöld

Leikfélag Hólmavíkur hefur að undanförnu sýnt Saumastofuna eftir Kjartan Rangarsson í leikstjórn Skúla Gautasonar. Að venju fer leikfélagið í leikferð og sýnir Saumastofuna í Logalandi í Reykholtsdal í kvöld, laugardaginn, 30. nóvember kl. 20 og í Dalabúð í Búðardal á morgun, sunnudaginn 1. desember kl. 20.

Saumastofan er eitt þekktasta verk Kjartans Ragnarssonar og er reglulega sett upp hjá áhugaleikfélögum. Verkið gerist árið 1975 og segir frá lífi starfsfólks á saumastofu. Óvænt afmælisveisla meðan yfirmaðurinn bregður sér frá verður til þess að það losnar um málbeinið á starfsfólkinu. Ýmis leyndarmál koma upp úr kafinu og fólkið kynnist nýjum og oft óvæntum hliðum hvers annars. Þó Saumastofan eigi sér stað og tíma, hárgreiðsla og fatatíska sé önnur en í dag og gerist fyrir tíma samskiptamiðla og snjalltækjavæðingar þá hefur í raun ekkert breyst. Leikritið fjallar, eins og nánast öll góð leikrit, um mannlegt eðli. Af hverju erum við eins og við erum, hvers vegna gerum við eins og við gerum, og hví erum við svona brothætt og breysk?

Í Saumastofunni stíga níu leikarar á svið, en auk þess kemur fjögurra manna hljómsveit og annars eins hópur kemur að uppsetningunni á einn eða annan hátt. Elsti leikarinn í sýningunni er á sínu 36. leikári með Leikfélagi Hólmavíkur og sú yngsta, 18 ára, er samt að taka þátt í sinni fjórðu sýningu í fullri lengd. Starf áhugaleikfélaga er ómissandi þáttur menningarlífs um allt land, eða eins og leikstjórinn Skúli Gautason orðar það: „Starfsemi áhugaleikfélaga hefur gríðarlega mikið gildi fyrir samfélagið. Af henni er margvíslegur ávinningur. Í fyrsta lagi er það hollt fyrir þátttakendur. Það er hverjum og einum hollt að ögra svolítið heilasellunum með því að læra (oft býsna magnaðan) texta. Það að setja sig í fótspor persónu í leikriti eflir skilning og samlíðan með öðru fólki. Oft gerir hlutverkið líka kröfu um gott líkamlegt ástand, svo að leikararnir komast í ágætt form á æfingatímanum, þjálfa söngrödd, danshæfileika og margt annað. Svo er leiklistarstarf gott móteitur við samfélagsmiðla- og snjalltækjavæðingu nútímans með allri sinni yfirborðsmennsku. Innan leikhópa skapast oft einlægni, traust og sterk vinabönd. Í öðru lagi er starf leikfélaga mikilvæg fyrir mannlífið í nærumhverfinu. Þau eru oft hápunkturinn á menningarlífi vetrarins í sínum byggðum, enda margir sem leggja ótrúlega vinnu á sig við að gera sýningar að veruleika. Í þriðja lagi skapar starfið stundum tengsl á milli leikfélaga.

Leikfélag Hólmavíkur hefur verið fastheldið á þá hefð að fara jafnan í leikferðir með sýningar sínar, eitt fárra leikfélaga á landinu. Leikferðirnar geta verið mislangar og misflóknar eftir eðli sýninga, en nær undantekningalaust hafa þær heppnast vel og myndað sambönd við önnur leikfélög, sambönd sem ekki verða til úr engu. Leikferðirnar stækka líka markaðssvæðið, því leikfélög í litlum plássum þurfa kannski ekki nema eina-tvær sýningar til að vera búin að ná öllum hugsanlegum áhorfendum þar á staðnum. Það er blóðugt eftir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í sýninguna. Svo eru leikferðir líka alltaf ákveðið ævintýri og tækifæri til að hitta skemmtilegt fólk.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir