Lionsmenn seldu miða í leikfangahappdrættinu

Félagar í Lionsklúbbi Ólafsvíkur gengu í hús um síðustu helgi og seldu súkkulaðidagatöl og happadrættismiða í hinu vinsæla leikfangahappadrætti Lionsklúbbsins sem dregið er í á aðfangadagsmorgun. Þegar lionsmenn ganga í hús og selja dagatölin og miðana færa þeir bæjarbúum í Ólafsvík rafhlöður í reykjskynjara í samstarfi við TM. Þetta er þó ekki það eina sem lionsmenn gera þetta kvöld enda er þetta gert á fundartíma þeirra og hluti af starfinu. Á meðan gengið er í hús að selja standa nokkrir félagar vaktina og útbúa súkkulaði og baka vöfflur fyrir sölumennina til að gæða sér á eftir hressandi göngu um bæinn.

Bæjarbúar taka einatt vel á móti sölumönnum Lionsklúbbsins og var salan góð. Fyrir þá sem að misstu af lionsmönnum er hægt að nálgast dagatöl og happadrættismiða í Hrund, Þín Verslun Kassinn og í Olís. Sem dæmi um vinninga í happadrættinu má nefna, rafhlaupahjól, spjaldtölvu, Bose heyrnatól, Bose hátalara ásamt ýmiskonar dóti fyrir stóra sem smáa stráka og stelpur. Það voru Landsbankinn, Olís, verslunin Hrund og Þín Verslun Kassinn sem styrktu happadrættið og eru vinningar í happadrættinu til sýnis að Ólafsbraut 19.

Líkar þetta

Fleiri fréttir