Sigurður Þór Elísson segir krökkunum frá búningum og búnaði slökkviliðsmanna. Við það naut hann liðsinnis Sigurðar Inga Grétarssonar og Karls Jóhanns Haagensens, sem klæddu sig í fullan skrúða við fræðsluna. Ljósm. kgk.

Fræddust um eldvarnir og starf slökkviliðsins

Eldvarnarátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og slökkviliða landsins stendur nú yfir. Sem fyrr fræða slökkviliðsmenn börn í 3. bekk víða um land um um eldvarnir og starf slökkviliðanna. Í gærmorgun mætti vel á sjöunda tug nemenda í 3. bekk Grundaskóla í heimsókn á slökkviliðsstöðina á Akranesi. Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar, tók á móti krökkunum áður en fræðslan hófst. Hún var í höndum Sigurðar Þórs Elíssonar sem naut við hana liðsinnis Sigurðar Inga Grétarssonar og Karls Jóhanns Haagensens. Krakkarnir fengu m.a. að sjá nýja teiknimynd um Loga og Glóð, heyra muninn á biluðum reykskynjara og þeim sem er í lagi og fengu kynningu á útbúnaði slökkviliðsmanna, svo fátt eitt sé nefnt. Að lokinni kynningu fengu krakkarnir að skoða sig um á slökkvistöðinni, máta sig við bílana og spyrja slökkviliðsmennina út í hvaðeina sem þeim lá á hjarta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir