Ráðherra hélt kynningarfund um nýjan menntasjóð námsmanna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra fór síðastliðinn mánudag til Hvanneyrar í þeim tilgangi að kynna fyrir háskólanemendum í héraðinu nýtt frumvarp um menntasjóð námsmanna. Fyrir fundinn fékk hún leiðsögn um starfsstöð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og hófst ferðin á Mið-Fossum. Landsamtök íslenskra stúdenta (LÍS) kynntu einnig sínar kröfur og í kjölfarið voru pallborðsumræður. Í pallborði sátu Lilja Dögg, Sigrún Jónsdóttir forseti LÍS og Leifur Finnbogason formaður nemendafélagsins á Bifröst.

Í kynningu ráðherra kom m.a. fram að miklar breytingar eru að eiga sér stað í námslánakerfinu. Ljúki nemandi námi innan tiltekins tíma er 30% niðurfærsla á höfuðstól, námslán verða greidd út mánaðarlega, aukið val verður við endurfjármögnun og lægstu mögulegir vextir í boði. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir betri stuðningi við fjölskyldufólk, einstæða foreldra og námsmenn utan höfuðborgarsvæðisins.

Sigrún Jónsdóttir, forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta, fjallaði um kröfur stúdenta vegna frumvarps um Menntasjóð námsmanna. Aðalkrafa stúdenta er að þak verði sett á vexti en þeir segja að frumvarpið í núverandi mynd boði afnám vaxtahámarks sem sé að finna í reglum LÍN. Sigrún fór einnig yfir kröfur stúdenta er varða lánsrétt og skýrar lágmarks námsframvindukröfur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir