Frá lagningu ljósleiðara skammt fyrir neðan félagsheimilið Hlaðir í Hvalfjarðarsveit. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Tveir buðu í ljósleiðaranet Hvalfjarðarsveitar

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti samhljóða á fundi sínum í byrjun september að auglýsa til sölu ljósleiðaranetið sem liggur heim að húsum og býlum í sveitarfélaginu. Með sölu á kerfinu er vilji sveitarstjórnar að draga úr ýmsum kostnaði við umsýslu og rekstur á dreifikerfinu. Þeim rekstri verði komið í hendur rekstraraðila sem sérhæfir sig í slíkum rekstri sem ekki er á kjarnasviði sveitarfélaga. Litið er svo á að sú sérhæfing og sérþekking sé ekki til staðar í dag. Í framhaldi ákvörðunar um að bjóða kerfið til sölu auglýsti sveitarfélagið eftir tilboðum og bárust tvö fyrir tilskilinn frest. Í frétt á vefsíðu sveitarfélagsins 18. nóvember segir að hærra boðið sé frá Mílu og hljóði það upp á 83,7 milljónir króna. Sú upphæð jafngildir um 350 þúsund krónum fyrir hverja tengingu í sveitarfélaginu. Gagnaveita Reykjavíkur átti lægra boðið; 49,2 milljónir króna. Á dagskrá fundar sveitarstjórnar síðdegis í gær var málið til umræðu og ákveðið að fresta ákvörðun um framhaldið.

Nú er lag til afskriftar

Lokið var við lagningu ljósleiðara um Hvalfjarðarsveit haustið 2015. Samanlagður kostnaður við verkefnið var um 370 milljónir króna og var framkvæmdin að fullu greidd úr sveitarsjóði enda hófst verkefnið áður en ríkið fór að styrkja lagningu ljósleiðara um landið. Íbúar sem tóku inn ljósleiðara skulbundu sig hins vegar til viðskipta í tvö ár en greiddu ekki stofngjald, líkt og íbúar í dreifbýli Borgarbyggðar þurfa t.d. að gera nú þegar lagning ljósleiðara er í gangi þar. Ef af sölu ljósleiðara Hvalfjarðarsveitar verður nú þarf sveitarsjóður Hvalfjarðarsveitar að afskrifa um þrjú hundrað milljónir króna sem er bókfært virði ljósleiðaranetsins í reikningum sveitarsjóðs. Frá þeirri tölu dregst hins vegar söluverð kerfisins, 84 milljónir króna samkvæmt framansögðu, ef hærra tilboðinu verður tekið. Sveitarstjórn telur að nú sé lag til þeirrar afskriftar þar sem einskiptis tekjur þessa árs verða miklar sökum áhrifa dóms sem féll fyrr á árinu þar sem Jöfnunarsjóði var gert að greiða fimm sveitarfélögum í landinu alls 683 milljónir króna og þar af Hvalfjarðarsveit 303 milljónir. Um var að ræða jöfnunarframlög sem tengist tekjutapi vegna lækkunar tekna sveitarfélaganna af fasteignaskatti og vegna launakostnaðar við kennslu í grunnskólum auk annars kostnaðar.

Óbreytt þjónusta og svipað verð

„Nú þegar borist hafa tilboð í ljósleiðarakerfið og fjárhæðir liggja fyrir er unnt að meta áhrif þeirra á rekstur sveitarfélagsins auk þess að skoða gjaldskrár- og þjónustukvaðir tilboðsgjafa.  Hærri tilboðsgjafinn, Míla, er í ljósi aðstæðna sinna á markaði háð ýmsum takmörkunum, bæði hvað varðar þjónustugjaldskrár og þjónustukvaðir og það þarf að skoða í samhengi við kröfur sveitarfélagsins hvað það varðar. Við í sveitarstjórn höfum lagt upp með að tryggja að þó veitan verði seld mun þjónustu- og gjaldskrá ekki verða umbylt og aðgengi tryggt,“ segir Björgvin Helgason oddviti Hvalfjarðarsveitar í samtali við Skessuhorn. Gjaldskrá fyrir notkun ljósleiðara í Hvalfjarðarsveit hefur ekkert breyst frá upphafi. Að sögn Lindu Bjarkar Pálsdóttur sveitarstjóra er gjaldskráin svipuð og gjaldskrá Mílu, en þó sá munur að Míla innheimtir virðisaukaskatt af þjónustunni, en það hefur Hvalfjarðarsveit ekki gert í innheimtu mánaðargjalda frá upphafi. Gjald fyrir ljósleiðaratengingu í Hvalfjarðarsveit hefur verið 2.375 krónur á mánuði en í gjaldskrá Mílu er gjald fyrir tengingu á landsbyggðinni 2.300 krónur auk virðisaukaskatts.

Vill íbúafund um málið

Jóhanna Harðardóttir í Hlésey vekur máls á sölu ljósleiðarans á íbúasíðu á Facebook. Óttast hún að í kjölfar sölunnar muni notendagjöld fyrir ljósleiðara hækka. „Ég skora því á sveitarstjórn að standa við loforð sín og halda íbúafund áður en ákvörðun er tekin, þar sem rök með og móti sölu verði kynnt og efnt til almennrar atkvæðagreiðslu um málefnið í kjölfarið,“ skrifar Jóhanna. Margir íbúar taka undir sjónarmið Jóhönnu. Aðspurð útilokar Linda sveitarstjóri ekki að boðað verði til íbúafundar um söluna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir