Nýr Bárður SH á leið til landsins

Nýr Bárður SH-81 er nú á siglingu til landsins. Komið var við í Þórshöfn í Færeyjum í gær en áætlað er að sigla af stað  Íslands í fyrramálið. Báturinn var smíðaður í Rødbyhavn í Danmörku fyrir Pétur Pétursson útgerðarmann í Ólafsvík. Nýr Bárður SH er glæsilegt skip eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Hann er 26,9 metra langur, sjö metra breiður og með 2,5 m. djúpristu. Stærð hans gerir hann því að stærsta trefjaplastbáti sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð.

Pétur var að skoða sig um Færeyjar þegar Skessuhorn heyrði í honum hljóðið núna laust fyrir hádegið. „Hér er búin að vera rigning og þoka en stytti upp í dag. Við nýtum tækifærið til að skoða aðeins eyjarnar áður en við leggjum af stað til Íslands í fyrramálið,“ segir Pétur í samtali við Skessuhorn. Hann segir að siglingin frá Danmörku hafi sóst vel. „Það gekk ljómandi vel að sigla til Færeyja, eins og í sögu. Það var suðaustan kaldi en bara mjög gott ferðaveður miðað við árstíma,“ segir hann. „Svo lítur út fyrir að við fáum fínt veður á leiðinni til Íslands, spáir vel næstu daga. Ég reikna með að við verðum tvo sólarhringa frá Færeyjum og leggjumst að bryggju í Hafnarfirði á laugardagsmorgun, ef allt gengur eðlilega,“ bætir Pétur við.

„Þar verður gengið frá ýmsum hlutum í bátnum í sambandi við búnaðinn, til dæmis verður sett í hann netaspil og annað,“ segir hann og kveðst eiga von á að báturinn verði í Hafnarfirði í um það bil tvær vikur. „Ég myndi halda að báturinn verði kominn heim í Ólafsvík um miðjan desember, það er stefnan,“ segir hann.

Aðspurður kveðst hann ánægður með bátinn og allt sem búið sé að prófa hafi reynst vel. „Við höfum auðvitað ekki lent í neinum brælum ennþá. Það verður nógur tími til að prófa það seinna meir,“ segir Pétur léttur í bragði að endingu.

Meðfylgjandi myndir af Bárði í höfninni í Þórshöfn tók Finn Gærdbo fyrir Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir